Mynd: Unnur Magna
Útskriftarhátíð Framhaldsskólans í Mosfellsbæ fór fram miðvikudaginn 29. maí við hátíðlega athöfn í húsnæði skólans við Bjarkarholt 35 í Mosfellsbæ.
Að þessu sinni voru 19 nemendur brautskráðir. Af félags- og hugvísindabraut voru brautskráðir tveir nemendur og einn af náttúruvísindabraut. Af opinni stúdentsbraut- almennu kjörsviði voru brautskráðir ellefu nemendur og af Íþrótta- og lýðheilsukjörsviði þrír nemendur. Af sérnámsbraut brautskráðust tveir nemendur.
Í ræðu skólameistara kom meðal annars fram að í undirbúningi er ný íslenskubraut fyrir nemendur af erlendum uppruna og mun kennsla á henni hefjast í haust. Tekin hafa verið stór skref í átt að auknu erlendu samstarfi fyrir bæði kennara og nemendur en skólinn er formlega orðinn Erasmus+ skóli. Í kjölfar þess aukast möguleikar á að senda bæði kennara og nemendur erlendis, bæði á námskeið og í skiptinám.
Til skólans streymi fólk víða að til að kynnast því sem við erum að gera og hefur vakið verðskuldaða athygli. Leiðsagnanámið og það lærdómssamfélag sem búið er að skapa við FMOS sé í stöðugri þróun í samvinnu við nemendur og að nýir möguleikar séu sífellt að opnast.
Að lokum þakkaði skólameistari stúdentum fyrir samstarfið og óskaði þeim velfarnaðar í framtíðinni.