Samkomulag um stofnun Framhaldsskólans í Mosfellsbæ var undirritað 19. febrúar 2008 af menntamálaráðherra og bæjarstjóranum í Mosfellsbæ, þar sem gert var ráð fyrir að skólinn myndi hefja starfsemi haustið 2009. Í samkomulaginu kom fram að aðilar væru sammála um að byggja nýjan skóla og að í fyrsta áfanga yrði gert ráð fyrir allt að 4.000 m2 byggingu sem myndi rúma 4-500 nemendur. Við hönnun hússins og undirbúning skólastarfs yrði lögð áhersla á sveigjanleika og möguleika til nýbreytni. Jafnframt yrði við ákvörðun lóðarstærðar yrði gert ráð fyrir möguleikum til verulegrar stækkunar í framtíðinni.
Frá upphafi haustannar 2009 til loka haustannar 2013 fór kennslan fram í Brúarlandi sem er elsta skólahús Mosfellsbæjar. Nýja skólabyggingin var fyrst notuð við útskrift 20. desember 2013. Kennsla hófst í byggingunni í upphafi vorannar 2014. Auk þess fer kennsla á hestakjörsviði Opinnar stúdentsbrautar að hluta til fram í reiðhöll Harðar í Mosfellsbæ. Verkleg íþróttakennsla fór fram í íþróttaraðstöðinni að Varmá allt fram til haustsins 2020 en þá var gerður samningur við World Class Iceland og verkleg íþróttakennsla færðist yfir í íþróttamiðstöðina Lágafell.
Hönnun nýju skólabyggingarinnar tekur mið af hugmyndafræði skólans sem gerir ráð fyrir því að kennsluhættir einkennist af virkni nemenda í eigin námi og þannig ýta undir sjálfstæði og frumkvæði.
Um nýju skólabygginguna:
- Skólabyggingin er 4100 fermetrar.
- Áhersla á vistvæna hönnun og er byggingin með BREEAM vottun sem er alþjóðlegt umhverfisvottunarkerfi.
- Arkitektar hússins eru A2F arkitektar - Aðalheiður Atladóttir og Frank Kruger.
- Listskreytingarnar í húsinu eru hannaðar af Bryndísi Bolladóttur listakonu sem vann með hljóðverkfræðingum til þess að gera listskreytingarnar hluta af hljóðvist skólans.
- Skólabyggingunni er skipt í sex kennsluklasa sem eru um 300 fermetrar hver. Í hverjum kennsluklasa eru tvær stórar stofur, þrjár litlar stofur og opin rými allt í kringum stofurnar.
Síðast breytt: 28. apríl 2023