Úr lögum um framhaldsskóla frá 2008 (nr. 92/2008):
50. gr.
Foreldraráð:
Við hvern framhaldsskóla skal starfa foreldraráð. Skólameistari boðar til stofnfundar þess. Hlutverk foreldraráðs er að styðja við skólastarfið, huga að hagsmunamálum nemenda og í samstarfi við skólann efla samstarf foreldra og forráðamanna ólögráða nemenda við skólann. Félagsmenn geta verið foreldrar nemenda við skólann. Kjósa skal í stjórn ráðsins á aðalfundi þess. Foreldraráð tilnefnir einn áheyrnarfulltrúa í skólanefnd. Foreldraráð setur sér starfsreglur.
Á foreldrafundi FMOS þann 8. desember 2010 voru eftirfarandi samþykktir félagsins lagðar fram og samþykktar.
Samþykktir Foreldraráðs FMOS
1.gr. Félagið heitir Foreldraráð FMOS. Aðsetur félagsins er í Mosfellsbæ.
Tilgangur, markmið og leiðir:
2. gr. Tilgangur ráðsins er að stuðla að auknum gæðum skólans og leitast við að bæta jafnframt almenn skilyrði og aðstæður einstakra nemenda til menntunar og almenns þroska. Markmiðum sínum hyggst ráðið ná með því meðal annars að:
- styðja skólann í áherslum sínum er varða lýðheilsu, umhverfis- og auðlindamál.
- stuðla að aukinni vitund foreldra/forráðamanna um forsjárskyldur sínar og þekkingu þeirra á réttindum og skyldum sínum og barna þeirra.
- vera samráðs- og samstarfsvettvangur foreldra/forráðamanna sem starfar í fullu samráði við stjórn nemendafélags, félagsmálafulltrúa og forvarnarfulltrúa skólans.
- auka sýnileika og nánd foreldra/forráðamanna sem veiti yfirvöldum, skólastjórnendum, kennurum og nemendum stuðning í skólastarfinu.
- koma á, efla og tryggja gott samstarf foreldra/forráðamanna og starfsfólks skólans.
- hvetja til aukins stuðnings og hvatningar foreldra/forráðamanna við börn sín og nám þeirra.
- vera bakhjarl skólans og auka áhrif foreldra/forráðamanna sem hagsmunahóps um bættan hag og stöðu skólans.
- standa vörð um réttindi nemenda til menntunar og farsæls þroska.
Aðild:
3. gr. Félagsmenn eru allir foreldrar og aðrir forráðamenn nemenda skólans. Ráðið er jafnframt opið öðrum velunnurum skólans sem óska eftir aðild. Öll vinna innan félagsins er unnin í sjálfboðavinnu og foreldrafélagið rukkar engin félagsgjöld.
Stjórn félagsins:
4. gr. Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Hann skal halda árlega í október. Til fundarins skal boðað bréflega/tölvupósti með a.m.k. 7 daga fyrirvara með dagskrá. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum í atkvæðagreiðslu.
Dagskrá aðalfundar skal vera:
a) Kosning fundarstjóra og fundarritara.
b) Skýrsla stjórnar um störf hennar og starfsemi félagsins.
c) Umræður um skýrslu stjórnar.
d) Kosning í stjórn félagsins.
e) Önnur mál
Stjórnin gegnir hlutverki foreldraráðs og skal skipuð fimm foreldrum/forráðamönnum nemenda, sem kosnir eru til tveggja ára í senn, tveir stjórnarmenn annað hvert ár og þrír hitt árið. Tveir varamenn skulu kosnir hvert ár. Stjórn skal skipta með sér verkum, þ.m.t. skipa formann. Varamenn skulu hafa setu- og tillögurétt á fundum stjórnar. Stjórnin skal halda gerðarbók þar sem bókuð eru öll mál sem tekin eru fyrir og allar ákvarðanir stjórnar. Einfaldur meirihluti stjórnarmanna ræður úrslitum ef ekki er einhugur um ákvarðanatöku.
Fjármál:
5. gr. Tekjur félagsins eru styrkir sem stjórn félagsins er heimilt að taka við frá opinberum aðilum og öðrum er styðja vilja félagið og starfsemi þess, svo og önnur fjáröflun. Fmos heldur utan um styrki sem félaginu berast.
Breytingar á samþykktum:
6. gr. Samþykktum þessum má aðeins breyta á aðalfundi félagsins. Tillögur að breytingum þurfa að berast stjórn félagsins ekki síðar en 14 dögum fyrir boðaðan aðalfund. Tillögur til breytinga á samþykktum þessum, sem stjórn félagsins hyggst leggja fram, skal kynna um leið og boðað er til aðalfundar.
7. gr. Ákvörðun um slit félagsins verður einungis tekin á aðalfundi með einföldum meirihluta og renna eignir þess til Framhaldsskólans í Mosfellsbæ.