Stefnuyfirlýsing
Starfsfólk og nemendur Framhaldsskólans í Mosfellsbæ líða ekki einelti undir nokkrum kringumstæðum. Einelti getur komið upp hvar sem er í samfélaginu og ber að sporna við því með fyrirbyggjandi aðgerðum og bregðast við því þegar það kemur upp. Allir, bæði starfsfólk og nemendur skólans, hafa hlutverki að gegna til að fyrirbyggja einelti í skólanum og er áhersla lögð á gagnkvæma virðingu í samskiptum. Taka ber allar tilkynningar um einelti alvarlega og bregðast skal skjótt við.
Skilgreining
Einelti er endurtekin athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Einelti getur verið líkamlegt og/eða andlegt og getur jafnt birst í gegnum bein samskipti og í gegnum netmiðla s.s. Facebook, Twitter og Snapchat.
Einelti getur m.a. birst í eftirfarandi (listinn er ekki tæmandi):
- Endurteknar uppnefningar eða baktal
- Að koma í veg fyrir að fólk spjalli eða vingist við ákveðna einstaklinga
- Ef hæðst er að öðrum t.d. vegna útlits, þyngdar, menningar, kynhneigðar, kynvitundar þjóðernis, trúar eða húðlitar einstaklings, fötlunar eða heilsuleysis.
- Illkvittin ummæli um einstakling.
- Myndir eða myndbönd af einstaklingi sent eða dreift með smáforritum og/eða á samskiptasíðum á Netinu gegn vilja hans.
- Þegar neitað er að vinna með ákveðnum einstaklingi í skólanum.
- Eigur annarra eyðilagðar.
- Líkamlegar meiðingar t.d. sparkað, slegið, hrækt eða fellt.
Ferli eineltismála
Fyrirbyggjandi aðgerðir gegn einelti skulu felast í reglulegri fræðslu um eineltismál, bæði fyrir nemendur og starfsfólk, t.d. með aðstoð utanaðkomandi ráðgjafa. Áætlun gegn einelti skal kynnt nemendum og starfsfólki árlega.
Einstaklingur sem verður var við einelti skal tilkynna það beint til náms- og starfsráðgjafa eða umsjónarkennara sem tekur þá ákvörðun um hvort málið þurfi að fara til náms- og starfsráðgjafa.
Nemendur
Í framhaldi af tilkynningu um einelti fer eftirfarandi ferli í gang:
- Náms- og starfsráðgjafi kallar saman umsjónarkennara og stjórnendur og skipuleggur rannsókn málsins með þeim.
- Málið rannsakað. Hlusta skal á sjónarmið allra aðila og gæta trúnaðar og tillitssemi, deila upplýsingum með öðrum starfsmönnum ef þess gerist þörf en álykta aðeins um tilvikið eða grípa til ráðstafana að vel athuguðu máli.
- Rætt er við þann/þá aðila sem hlut eiga að máli ásamt forráðamanni/-mönnum ef nemandi undir 18 ára aldri.
- Framhald málsins er ákveðið í samráði við aðila málsins. Sé hins vegar um brot á landslögum að ræða getur málinu verið vísað til lögreglu.
- Niðurstöður kynntar fyrir þolanda og geranda þegar þær liggja fyrir.
Starfsfólk
Ef upp kemur grunur um að starfsmaður sé lagður í einelti skal tilkynna það til skólastjórnenda eða trúnaðarmanns. Í framhaldi af tilkynningu um grun um einelti fer eftirfarandi ferli í gang:
- Skólastjórnendur og/eða trúnaðarmaður skipuleggja rannsókn málsins. Telji starfsmaður sig verða fyrir einelti af hálfu skólastjórnenda má leita beint til mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
- Málið rannsakað. Hlusta skal á sjónarmið allra aðila og gæta trúnaðar og tillitssemi. Leita skal eftir upplýsingum frá kennurum, öðru starfsfólki og utanaðkomandi ráðgjöfum ef þörf krefur.
- Ekki er aðhafst í málinu nema sá sem verður fyrir einelti sé samþykkur. Sé hins vegar um brot á landslögum að ræða getur málinu verið vísað til lögreglu.
- Niðurstöður kynntar fyrir þolanda og geranda þegar þær liggja fyrir.
Hér má sjá myndræna framsetningu á ferlinu: nemendur og starfsmenn
Síðast breytt: 2. september 2022