Sérnámsbraut
FMOS starfrækir sérnámsbraut (starfsbraut) fyrir fatlaða nemendur, þar sem áherslan er á sérskipulagðar einstaklingsnámskrár og að nemendur fái tækifæri til að stunda nám í almennum áföngum eftir getu og áhuga.
Nemendur með námsörðugleika
Nemendur sem hafa ekki náð markmiðum grunnskóla vegna námsörðugleika eða einhvers konar hindrana í námi, s.s. athyglisbrests, lesblindu og annarra sértækra námsörðugleika geta sótt um nám á Framhaldsskólabraut. Framhaldsskólabraut er ætlað að koma til móts við þá nemendur sem uppfylla ekki inntökuskilyrði á stúdentsbrautir skólans eða eru óákveðnir um námsval. Markmið náms á brautinni er að undirbúa nemendur undir áframhaldandi nám í framhaldsskóla. Brautin er 90 einingar, 55 einingar í kjarna og 35 einingar frjálst val, og er meðalnámstími 4 annir. Nemendur, sem óska eftir því, geta fært sig yfir á stúdentsbrautir skólans þegar þeir hafa lokið undirbúningsáföngum í kjarnagreinunum ensku, íslensku og stærðfræði og uppfylla þar með inntökuskilyrði á brautirnar.
Náms- og starfsráðgjafar skólans sinna ráðgjöf við nemendur m.a. vegna sértækra námsörðugleika.
Nemendur með annað móðurmál en íslensku
Nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku fá kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Samhliða þjálfun í íslensku máli fer fram kynning á íslenskri sögu og menningu. Kennslan er í sérstökum kennslustundum og verkefnatímum. Í verkefnatímum gefst nemendum kostur á að vinna heimanám í öllum námsgreinum undir handleiðslu íslenskukennara í samráði við viðkomandi námsgreinakennara. Í boði eru tveir þriggja eininga áfangar á 1. þrepi og nýtast sem valeiningar á stúdentsbrautum skólans.
Síðast breytt: 1. febrúar 2024