Dags: 23.01.2023
Fundarstaður: FMOS
Mættir: Anna Sigríður Guðnadóttir, Elín Eiríksdóttir, Guðrún Guðjónsdóttir, Halla Karen Kristjánsdóttir, Kolbrún Reinholdsdóttir, Sigríður Johnsen, Sigurður Óli Karlsson, Valgarð Már Jakobsson
Dagskrá:
1. Innritun á vorönn 2023
2. Fjármál
3. Önnur mál
Valgarð byrjar fundinn á að segja frá því að Guðbjörg er komin í veikindaleyfi fram yfir páska. Valgarð tekur við skólameistarastarfinu á meðan og Guðrún við aðstoðarskólameistarastarfinu.
1. Innritun á vorönn 2023
Nemendafjöldi á vorönn er 233, ekki tala sem við erum sérstaklega ánægð með og hefur líklega ekki verið svona lág síðan við fluttum í þetta húsnæði. Hópur sem sinnir markaðsmálum er að störfum og við erum vongóð um að geta fjölgað nemendum á haustönninni. Ýmsar vangaveltur um ástæður þessarar fækkunar og aukin aðsókn nemenda í fjarnám gæti verið ein skýring. Ýmislegt sem hefur breyst eftir Covid þegar nemendur kynntust því að stunda nám að heiman.
2. Fjármál
Valgarð fór yfir rekstur ársins 2022 sem kemur út í 24,5 milljónum í mínus sem er töluvert lægra en leit út fyrir þegar fjármálin voru rædd á síðasta skólanefndarfundi, þetta eru 3,8% frávik. Greinagerð var send í ráðuneytið í desember þar sem stífar aðhaldsaðgerðir voru kynntar og útskýrt hvernig við ætlum að vinna niður hallann. Stærsti liðurinn í þeirri áætlun er að minnka yfirvinnu og á vorönninni hefur hópum verið fækkað þannig að mjög lítið er um yfirvinnu. Kennarar eru sumir aðeins undir í vinnumati og eru þá ýmist að samkenna eða sinna öðrum verkefnum sem áður var greitt fyrir í yfirvinnu. Það kemur í ljós fljótlega á þessu ári hvort aðhaldsaðgerðir muni bera árangur.
3. Önnur mál
a) Valgarð segir frá ýmsum nýjungum á vorönninni. Í næstu viku verður fjarkennsluvika og við heyrum á nemendum að það eru skiptar skoðanir um þessa viku. Það verður spennandi að heyra í þeim eftir vikuna þegar við leggjum mat á hvernig til tókst. Tveir endurskilsdagar verða á önninni en þar gefst nemendum tækifæri til að vinna upp verkefni í samráði við kennara, taka sjúkrapróf o.fl. Samkennsludagur er líka nýjung en þar munu kennarar sem kenna á sama tíma í töflu vinna saman að verkefnum þar sem ólíkum greinum er fléttað saman. Á önninni verður líka einn Unesco dagur, dagur tjáningarfrelsis, en sem formlegur Unesco skóli ber okkur að hafa dagskrá sem tengist heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna a.m.k. einn dag á ári. Verkefnadagarnir í lok annar sem voru áður 8 verða nú 4 eftir þessar breytingar.
b) Sigurður Óli var spurður hvernig ballið á Akranesi hafi gengið. Hann segir að bæði ballið og dagskrá í tengslum við Halloween hafi gengið vel. Söngkeppni innan skólans er nýafstaðin og þar með búið að velja þátttakanda í Söngkeppni framhaldsskólanna. Næsta verkefni er svo árshátíð 2. mars í Gullhömrum.
c) Umræður um kynningarátak í skólanum og gildi þess að skrifa í Mosfelling. Valgarð upplýsir að hann stefnir að því að skrifa grein í hvert blað á vorönninni.
Fundi slitið kl. 18:30
Fundargerð skrifaði Guðrún Guðjónsdóttir
Dags: 31.10.22 klukkan 17:15
Fundarstaður: FMOS
Mættir: Guðbjörg Aðalbergsóttir, Sigríður Johnsen, Kolbrún Reinholdsdóttir, Sigurður Óli Karlsson, Elín Eiríksdóttir, Anna Sigríður Guðnadóttir, Halla Karen Kristjánsdóttir, Inga Þóra Ingadóttir, og Valgarð Már Jakobsson
Dagskrá:
1. Fjármál
Guðbjörg fór yfir rekstraryfirlit skólans. Launakostnaður jókst á síðasta ári og eru fjölmargar ástæður fyrir þessu. Veikindaleyfi og önnur áföll sem þurfti að bregðast við með afleysingu í yfirvinnu skýra aukinn launakostnað og auðsýnt er að afkoman verður í neikvæð á rekstrarárinu. Verið er að leita leiða við að bregðast við þessu í rekstrinum.
2. Innra starf.
Valgarð fór yfir viðhorfskönnun um líðan nemenda og fundi með rýnihópi nemenda.
Rýnihópur nemenda samanstendur af um 15 krökkum sem við köllum til okkar þrisvar á önn til álitsgjafar. Þetta er hluti af sjálfsmatskerfi skólans en við notum þessa fundi til að fá álit þeirra á ýmsum þáttum skólastarfsins. Tveir fundir hafa verið haldnir nú í haust. Á fyrri fundinum ræddum við fyrirkomulag verkefnadaga sem eru í lok hverrar annar. Niðurstöður þess fundar voru notaðar sem innlegg í þróunarvinnu sem kennarar lögðust í við endurmat á fyrirkomulagi verkefnadaganna. Á seinni fundinum voru nemendur beðnir um að velta fyrir sér styrkleikum og veikleikum skólans og verða niðurstöðurnar nýttar í vinnu við að ræða stefnu skólans.
Viðhorfskönnun var lögð fyrir alla nemendur skólans 18-21. okt. Það var gleðilegt að svarhlutfall var mun hærra en við höfum séð í langan tíma eða um 70%. Það er næstum tvöföldun frá því haustinu áður. Niðurstöður könnunarinnar voru mjög jákvæðar og það er greinilegt að flestum nemendum líður vel í skólanum. Vegið meðaltal á skalanum 1-5 er 3,99 og hefur verið að hækka undanfarið eins og sést á meðfylgjandi mynd.
Niðurstöður annarra spurninga voru að sama skapi jákvæðar og í opnum svörum tala þau almennt mjög jákvætt um skólann sinn og kennara.
3. Önnur mál
Sigurður Óli, formaður nemendaráðs, var spurður út í félagslífið sem framhald af umræðu um viðhorfskönnunina. Hann sagði frá því sem hefur verið á döfinni svo sem Halloween vikunni. Einnig sagði hann frá fyrirhuguðu balli sem haldið er á Akranesi í samvinnu með FVA á Akranesi, MB í Borgarnesi og FSN á Snæfellsnesi. Fleira var rætt um félagslífið en mikill kraftur hefur verið í nemendum á þessari önn. Elín bætti við að sérnámsbrautin væri að taka meira þátt en áður.
Spurt var um útskrift en hún verður 20. des. og jafnvel með aðeins öðruvísi sniði en venjulega þó ekki sé tímabært að tilkynna með hvaða hætti það verður.
Sagt var frá fyrirlestri sem Benna Sörensen kom og hélt um ofbeldisforvarnir fyrir starfsmenn.
Spurt var hvernig kennslu í upplýsingalæsi væri háttað í skólanum. Það fléttast inn í flestar námsgreinar en rík áhersla er lögð á að kenna nemendum ábyrga og skilvirka öflun og notkun heimilda í verkefnavinnu sinni. T.a.m. notast kennarar við Turn-it-in hugbúnað sem var upphaflega hugsað sem tæki fyrir kennara til að grípa ritstuld en er líka notað af kennurum hér við að kenna nemendum að nota heimildir með ábyrgum hætti.
Að lokum var sagt frá fyrirhuguðum þjóðfundi með nemendum þar sem öllum nemendum verði safnað saman í matsal til að ræða um gildi skólans. Fundurinn verður haldinn með svokölluðu World Café formi þar sem þau sitja sex við hvert borð og skrifa allt sem þeim dettur í hug.
Fundi slitið kl. 18:16
Fundarstjórn: Guðbjörg Aðalbergsdóttir
Fundargerð: Valgarð Már Jakobsson
Dags: 19.09.22
klukkan 17:15
Fundarstaður: FMOS
Mættir: Guðbjörg Aðalbergsóttir, Sigríður Johnsen, Kolbrún Reinholdsdóttir, Sigurður Óli Karlsson, Elín Eiríksdóttir, Anna Sigríður Guðnadóttir, Halla Karen Kristjánsdóttir, Inga Þóra Ingadóttir, Sigmar Vilhjálmsson, og Valgarð Már Jakobsson
Dagskrá:
- Kosning formanns
- Innritun á haustönn
- Starfsmannabreytingar
- Fjármál
- Önnur mál
Fundurinn hófst á því að nefndarmenn kynntu sig.
1. Kosning formanns
Sigríður Johnsen hlaut ein tilnefningu og var kjörin formaður með lófaklappi.
2. Innritun á haustönn
Guðbjörg fór yfir tölur í innritun og benti á að innritunartölur væru töluvert lægri en undanfarin ár. Opin stúdentsbraut er stærst allra brauta. Nýnematalan 84 saman stendur af 59 nemendum sem eru að koma úr 10 bekk og svo eldri nemendum sem eru að hefja nám hér í fyrsta sinn. Fyrirhugað er að útskrifa 25 nemendur í desember. Umræður um hvað er til ráða við að auka fjöldann í skóla. Spurt var um skilgreiningu á brautum, framhaldsskólabrú er að hætta.
3. Starfsmannabreytingar
Júlíana Garðarsdóttir, sálfræðingur skólans er hætt hjá okkur. Guðrún Elísa Sævarsdóttir færði sig af sérnámsbraut á skrifstofu. Umræður fóru fram um geðheilbrigðisþjónustu, Sigurður var spurður um það hvort nemendur væru að nýta þjónustu námsráðgjafa. Hjúkrunarfræðingurinn Lilja Dögg Ármannsdóttir kominn til okkar frá heilsugæslunni og er enn að komast inn í starfið. FMOS hefur gert samning við Kvíðameðferðastöðina um að við getum vísað til þeirra nemendum og þau stefna að því að geta tekið á móti þeim innan viku frá því að við höfum samband.
4. Fjármál
Farið var yfir rekstraryfirlit ársins frá janúar-ágúst 2022. Nokkrar umræður fóru fram um rekstraryfirlitið og niðurstaðan var sú að við munum koma með nánari skýringar, á ýmsum liðum sem þóttu torskildir, á næsta fundi. Staðreyndin er sú að rekstraryfirlit á miðju ári er mjög ógagnsætt þar sem framlag ríkisins er ekki komið inn að fullu. Við ræddum svo um leiðir til að auka aðsókn í skólann og komu margar góðar hugmyndir fram. Rætt var um hlutverk nemendafélagsins í því að auka aðsókn. Alls konar hugmyndir voru ræddar í þessu tilliti, böll, sýnileika á samfélagsmiðlum og svo framvegis. Einnig var stungið upp á „þankahríðsfundi“ til að finna út hvernig megi auka við aðsóknina.
5. Önnur mál
Félagslíf skólans var rætt og formaður nemendafélagsins sagði frá starfinu og svaraði spurningum annarra fundarmanna.
Fundi slitið kl. 18:46
Fundarstjórn: Guðbjörg Aðalbergsdóttir
Fundargerð: Valgarð Már Jakobsson