Ársskýrsla Framhaldsskólans í Mosfellsbæ fyrir 2013

Ársskýrslan var unnin af skólameistara og aðstoðarskólameistara snemma á árinu 2014.

Ársskýrsla 2013

Inngangur
Uppbygging skólastarfs í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ hélt áfram á árinu 2013 og sem fyrr var megináherslan á að styðja við og koma hugmyndafræði skólans og stefnu í framkvæmd. Sérstök áhersla var lögð á það á haustönninni að undirbúa flutning í nýja skólabyggingu um áramótin 2013-2014. Mestur tíminn fór í að undirbúa kennara til að nýta hin nýju kennslurými, sem byggð eru utan um hugmyndafræði skólans um kennsluhætti , á sem bestan hátt. Kjarninn í hugmyndafræðinni snýst um að skapa námssamfélag kennara og nemenda þar sem samtalið og flæði milli rýma er mikilvægast.

Nemendur
Á vorönn 2013 voru nemendur um 230 og á haustönn 2013 voru þeir um 257. Meirihluti nemenda skólans eru úr Mosfellsbæ og nágrannabyggðum (Grafarvogur, Grafarholt, Kjalarnes, Akranes), eða um 80%. Kynjahlutfall hefur verið í jafnvægi á undanförnum önnum. Frá árinu 2012 hefur eldri nemendum fjölgað mikið. Skiptingin nú er þannig að nemendur yngri en 18 ára eru um 27% nemendahópsins og þeir eldri um 73%.

Heiti brautar Vorönn 2013 Haustönn 2013
Almenn námsbraut 26 42
Félags- og hugvísindabraut 126 130
Listabraut 30 29
Íþrótta- og lýðheilsubraut 13 10
Náttúruvísindabraut 30 36
Sérnámsbraut 1 5 10

 

Kyn Vorönn 2013 Haustönn 2013
KK 115 132
KVK 115 125

 

 

Árgangur Vorönn 2013 Haustönn 2013
1957-1987 6 9
1988 3 3
1989 8 8
1990 24 15
1991 28 26
1992 29 25
1993 43 42
1994 28 35
1995 28 24
1996 33 31
1997   36

Nemendur skólans glíma margir við námsörðugleika og hafa töluvert brotinn námsferil að baki. Töluvert hærra hlutfall nemenda í FMOS er í vandræðum með lestur og kljást við athyglisbrest og einbeitingarskort, en þekkist í öðrum framhaldsskólum. Þetta staðfestist í nýlegri skýrslu Rannsóknar og greiningar „Betri líðan í mínum skóla“.

Nemendahópurinn er mikil áskorun í kennslunni, en verkefnamiðaðar kennsluaðferðir skólans styðja ágætlega við marga þessa nemendur og auðvelda þeim að ná góðum tökum á náminu. Kennsluhættir skólans virðast henta vel breiðum hópi nemenda, en til viðbótar var ákveðið að veita þeim nemendum sem verst eru staddir sérstakan stuðning þar sem þeir eru aðstoðaðir við verkefnavinnu og skipulag.

Á seinni hluta árs 2013 komu fram vísbendingar um að brottfall fari minnkandi. Á næstu önnum á undan var brottfallið um 28% en var með sams konar mælingu um 22% á haustönn 2013. Mikil vinna hefur verið lögð í að greina brottfallið og finna leiðir til að sporna við því. Leiðirnar sem farnar hafa verið eru m.a. sérstakur stuðningur inn í kennslustundum, vinnustofa í umsjón námsráðgjafa fyrir nemendur sem komnir eru í áminningarferli og erkiumsjónarverkefni sem fékk styrk úr Sprotasjóði, en sú hugmynd gengur út á að byggja upp trúnaðarsamband milli umsjónarkennara og nemenda og að þeir fái aðstoð og stuðning á einstaklingsgrunni. Þrír kennarar vinna að þessu verkefni.

Nýtingarhlutfall í hópum hefur hækkað svolítið og er um 58%.

Nám
Boðið er upp á nám á 6 námsbrautum í skólanum, þ.e. nám á almennri braut, listabraut, íþrótta- og lýðheilsubraut, félags- og hugvísindabraut og náttúruvísindabraut. Auk þess er starfrækt sérnámsbraut fyrir fatlaða nemendur og hér með er lagt til að þessar brautir verði nefndar sérnámsbrautir, því starfsbrautarnafnið ruglast gjarnan við annars konar brautir. Námsframboðið er í samræmi við áherslur skóla og ráðuneytis og er nokkuð fjölbreytt, en áhugi er á því innan skólans að þróa nám sem leggur minni áherslu á bóknám en meiri á verklega þætti og handverk. Uppbygging námsbrauta hefur verið í þróun að undanförnu og áhugi er á því innan skólans að finna fleiri leiðir til námsloka og auka sveigjanleika á milli námsbrautanna. Á seinni hluta ársins komu fram hugmyndir um nýja námsbraut – opna stúdentsbraut – þar sem nemendum gefst tækifæri til að hanna stúdentspróf að eigin vali.

Þróunarstarfið í FMOS skiptist í tvo meginhluta, þróun kennsluhátta annars vegar og innleiðingu nýrra laga um framhaldsskóla hins vegar. Áherslupunktarnir í þróun kennsluhátta snúast um verkefnamiðaðar kennsluaðferðir og leiðsagnarmat sem fléttast saman við kennsluaðferðirnar. Nýr áherslupunktur í þróunarvinnunni bættist við á seinni hluta ársins vegna flutnings í nýtt húsnæði og nýtingar kennslurýma í samhengi við það.

Þróunarvinnan sem tengist innleiðingu nýrra laga felst einkum í uppbyggingu og útfærslu námsbrauta og áfangalýsinga, auk þess hafa áfangalýsingar verið endurskoðaðar og áfangarnir tímamældir reglulega með tilliti til samhengis eininga og vinnu nemenda.

Kennsla og stjórnun
Í stjórnun skólans er lögð áhersla á að stefnu skólans sé fylgt og að starfið sé vel skipulagt. Einnig er áhersla á að beita lýðræðislegum starfsaðferðum við stjórnun þar sem haft er að leiðarljósi að finna jafnvægi milli jafningjasamstarfs og leiðbeinandi leiðtogahlutverks. Tveir stjórnendur eru í skólanum, skólameistari og aðstoðarskólameistari, báðir í 100% stöðu. Engir millistjórnendur hafa verið í skólanum, en í lok árs voru ráðnir þrír sviðsstjórar úr hópi kennara til að aðstoða við stjórnun. Kennarar voru 24 í 22 stöðugildi og aðrir starfsmenn 5 í 4 stöðugildum. Meirihluti starfsmanna er með starfsaldur sem er minni en 4 ár, en 9 starfsmenn eru með meira en 4ja ára starfsaldur. Allir kennarar eru með kennsluréttindi og háskólamenntun í sinni kennslugrein og meirihluti þeirra með masterspróf (16).

Kennsluhættir skólans eru í aðalatriðum þannig að notaðar eru fjölbreyttar verkefnamiðaðar kennsluaðferðir og leiðsagnarmat, og stundataflan er brotin upp með verkefnatímum þar sem kennarar eru til taks og nemendur stjórna sjálfir í hvaða verkefnatíma þeir mæta. Kennsluaðferðirnar miða að því að nemendur séu virkir þátttakendur í náminu sínu og tileinki sér námsefnið í gegnum verkefni sem þeir vinna. Áhersla er síðan lögð á að leiðsagnarmatið leiði nemendur áfram og hjálpi þeim að bæta árangur sinn.

Skipulag kennslunnar og kennsluhættir hafa reynst í öllum meginatriðum vel. Nánari útfærsla og þróun á aðferðunum eru stöðugt til umræðu á vikulegum fundum starfsmanna og ákvarðanir teknar jafnóðum um breytingar. Á seinni hluta ársins fór mestur tíminn í að þróa kennsluhættina áfram í samhengi við nýtt hús þar sem áherslan var á að nýta kennslurýmin til fulls og koma hugmyndafræði kennslunnar til framkvæmda, enda eru kennslurýmin hönnuð utan um hugmyndafræðina. Kennarar skólans eru vel menntaðir og kraftmiklir, og mikil orka felst í þeim áhuga og frumkvöðlaanda sem ríkir í skólanum.

Mat
Uppbygging gæðakerfis skólans miðar að því að það sé altækt og umbótamiðað. Í áætlun um sjálfsmat er gerð grein fyrir þeim þáttum sem hafa verið og verða metnir, og í sjálfsmatsskýrslu er gerð grein fyrir umbótum í framhaldi af matinu, sjá vef skólans, Sjálfsmatsskýrslur.

Fjármál, rekstur, aðbúnaður
Stefnt er að því að halda fjárhagslegri stöðu skólans í jafnvægi á hverjum tíma þ.e. að kostnaður við rekstur skólans fari ekki fram úr fjárheimildum sem honum eru ætlaðar á fjárlögum. Erfitt hefur reynst að ná þessu markmiði fyllilega, aðallega vegna þess hvernig nemendahópurinn er samsettur. Nýting starfskrafta var góð miðað við stærð skólans og var meðalhópastærð um 19 nemendur og fermetrar á nemanda á árinu 2013 voru rúmlega 3.

Samstarf við aðra.
Skólinn er í samstarfi við ýmsa aðila í Mosfellsbæ, s.s. grunnskóla bæjarins, íþróttafélagið, tónlistarskólann, myndlistarskólann og Hestamannafélagið Hörð. Á næstu misserum verður samstarfið þróað áfram.

 

Mosfellsbær, 7. apríl 2014

Guðbjörg Aðalbergsdóttir, skólameistari
Guðrún Guðjónsdóttir, aðstoðarskólameistari