Ársskýrslan var unnin af skólameistara og aðstoðarskólameistara snemma á árinu 2013.
Inngangur
Uppbygging skólastarfs í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ hélt áfram á árinu 2012 og sem fyrr var megináherslan á að styðja við og koma hugmyndafræði skólans og stefnu í framkvæmd.
Nemendur
Á vorönn 2012 voru nemendur um 228 og á haustönn 2012 voru þeir um 250. Meirihluti nemenda skólans eru úr Mosfellsbæ og nágrannabyggðum (Grafarvogur, Kjalarnes, Akranes), eða um 80%. Kynjahlutfall er nokkurn veginn í jafnvægi. Aldurssamsetning nemendahópsins breyttist töluvert á árinu 2012 og hefur eldri nemendum fjölgað mikið. Skiptingin nú er þannig að nemendur yngri en 18 ára eru um 25% nemendahópsins og þeir eldri um 75%.
Nemendur skólans glíma margir við námsörðugleika og hafa töluvert brotinn námsferil að baki. Töluvert hærra hlutfall nemenda í FMOS er í vandræðum með lestur og kljást við athyglisbrest og einbeitingarskort, en þekkist í öðrum framhaldsskólum. Þetta staðfestist í nýlegri skýrslu Rannsóknar og greiningar „Betri líðan í mínum skóla“.
Nemendahópurinn er mikil áskorun í kennslunni, en verkefnamiðaðar kennsluaðferðir skólans styðja ágætlega við marga þessa nemendur og auðvelda þeim að ná góðum tökum á náminu. Kennsluhættir skólans virðast henta vel breiðum hópi nemenda, en til viðbótar var ákveðið að veita þeim nemendum sem verst eru staddir sérstakan stuðning þar sem þeir eru aðstoðaðir við verkefnavinnu og skipulag.
Brottfall var áfram mikið á síðasta ári eins og verið hefur. Stöðugt er unnið að því að finna leiðir til að minnka brottfallið, með meira utanumhaldi, tilboðum um námskeið og sérstökum stuðningi inn í kennslustundum eins og minnst var á hér að ofan og sérstökum vinnustofum í umsjón námsráðgjafa fyrir nemendur sem komnir er í áminningarferli.
Ýmsar fleiri hugmyndir hafa komið fram sem raunverulega geta haft áhrif á brottfallið. Þar má nefna umfangsmikla breytingu á hlutverki umsjónarkennara (erkiumsjón), og þá er gert ráð fyrir að kennarar sem áhuga hafa taki að sér tiltekinn fjölda nemenda sem þeir sinna á einstaklingsgrunni. Þessi hugmynd gengur út á að byggja upp trúnaðarsamband milli umsjónarkennara og nemenda og þarfnast umtalsvert meiri tíma en hefðbundið umsjónarkennarastarf. Frá haustönn 2012 hefur þetta tilraunaverkefni verið í gangi og vinna nokkrir kennarar að því áfram og til stendur að sækja um styrk úr Sprotasjóði til verkefnisins.
Nýtingarhlutfall í hópum er svipað og hefur verið, um 53,3%
Nám
Boðið er upp á nám á 6 námsbrautum í skólanum, þ.e. nám á almennri braut, listabraut, íþrótta- og lýðheilsubraut, félags- og hugvísindabraut og náttúruvísindabraut. Auk þess er starfrækt sérnámsbraut fyrir fatlaða nemendur og hér með er lagt til að þessar brautir verði nefndar sérnámsbrautir, því starfsbrautarnafnið ruglast gjarnan við annars konar brautir. Námsframboðið er í samræmi við áherslur skóla og ráðuneytis og er nokkuð fjölbreytt, en áhugi er á því innan skólans að þróa nám sem leggur minni áherslu á bóknám en meiri á verklega þætti og handverk. Uppbygging námsbrauta hefur verið í þróun að undanförnu og áhugi er á því innan skólans að finna fleiri leiðir til námsloka og auka sveigjanleika á milli námsbrautanna.
Þróunarstarfið í FMOS skiptist í tvo meginhluta, þróun kennsluhátta annars vegar og innleiðingu nýrra laga um framhaldsskóla hins vegar. Áherslupunktarnir í þróun kennsluhátta snúast um verkefnamiðaðar kennsluaðferðir og leiðsagnarmat sem fléttast saman við kennsluaðferðirnar. Þróunarvinnan sem tengist innleiðingu nýrra laga felst einkum í uppbyggingu og útfærslu námsbrauta og áfangalýsinga, auk þess áfangalýsingar voru endurskoðaðar og áfangarnir tímamældir reglulega með tilliti til samhengis eininga og vinnu nemenda.
Kennsla og stjórnun
Í stjórnun skólans er lögð áhersla á að stefnu skólans sé fylgt og að starfið sé vel skipulagt. Einnig er áhersla á að beita lýðræðislegum starfsaðferðum við stjórnun þar sem haft er að leiðarljósi að finna jafnvægi milli jafningjasamstarfs og leiðbeinandi leiðtogahlutverks. Tveir stjórnendur eru í skólanum, skólameistari og aðstoðarskólameistari, báðir í 100% stöðu. Engir millistjórnendur eru í skólanum, en kennarar eru stundum ráðnir í einstök verkefni, s.s. stundatöflugerð. Kennarar voru 26 í 21 stöðugildi og aðrir starfsmenn 4 í 3 stöðugildum. Meirihluti starfsmanna er með starfsaldur sem er minni en 3 ár, en 9 starfsmenn eru með meira en 3ja ára starfsaldur. Allir kennarar eru með kennsluréttindi og háskólamenntun í sinni kennslugrein og meirihluti þeirra með masterspróf (16).
Kennsluhættir skólans eru í aðalatriðum þannig að notaðar eru fjölbreyttar verkefnamiðaðar kennsluaðferðir og leiðsagnarmat, og stundataflan er brotin upp með verkefnatímum þar sem kennarar eru til taks og nemendur stjórna sjálfir í hvaða verkefnatíma þeir mæta. Kennsluaðferðirnar miða að því að nemendur séu virkir þátttakendur í náminu sínu og tileinki sér námsefnið í gegnum verkefni sem þeir vinna. Áhersla er síðan lögð á að leiðsagnarmatið leiði nemendur áfram og hjálpi þeim að bæta árangur sinn.
Skipulag kennslunnar og kennsluhættir hafa reynst í öllum meginatriðum vel. Nánari útfærsla og þróun á aðferðunum eru stöðugt til umræðu á vikulegum fundum starfsmanna og ákvarðanir teknar jafnóðum um breytingar. Kennarar skólans eru vel menntaðir og kraftmiklir, og mikil orka felst í þeim áhuga og frumkvöðlaanda sem ríkir í skólanum.
Mat
Uppbygging gæðakerfis skólans miðar að því að það sé altækt og umbótamiðað. Í áætlun um sjálfsmat er gerð grein fyrir þeim þáttum sem hafa verið og verða metnir, og í sjálfsmatsskýrslu er gerð grein fyrir umbótum í framhaldi af matinu, sjá vef skólans, Sjálfsmatsskýrslur.
Fjármál, rekstur, aðbúnaður
Stefnt er að því að halda fjárhagslegri stöðu skólans í jafnvægi á hverjum tíma þ.e. að kostnaður við rekstur skólans fari ekki fram úr fjárheimildum sem honum eru ætlaðar á fjárlögum. Erfitt hefur reynst að ná þessu markmið fyllilega, aðallega vegna þess hvernig nemendahópurinn er samsettur. Nýting starfskrafta var góð á miðað við stærð skólans og var meðalhópastærð um 21 nemendur og fermetrar á nemanda á árinu 2012 voru rúmlega 3.
Samstarf við aðra. Skólinn er í samstarfi við ýmsa aðila í Mosfellsbæ, s.s. grunnskóla bæjarins, íþróttafélagið, tónlistarskólann, myndlistarskólann og Hestamannafélagið Hörð. Á næstu misserum verður samstarfið þróað áfram.
Mosfellsbær, 1. mars 2013
Guðbjörg Aðalbergsdóttir, skólameistari
Guðrún Guðjónsdóttir, aðstoðarskólameistari