Fundargerðir skólanefndar 2020-2021

Dags: 1.3.2021
Fundarstaður: FMOS
Mættir: Guðrún Guðjónsdóttir, Inga Þóra Ingadóttir, Kolbrún Reinholdsdóttir, Mikael Rafn L Steingrímsson og Sigríður Johnsen.

Dagskrá:
1. Vorönn 2021
2. Fjármál
3. Ytra mat
4. Jafnlaunavottun
5. Önnur mál

1. Vorönn 2021
Guðrún segir frá því að það eru færri nemendur á vorönn en við óskuðum eftir, fáar umsóknir og við tókum inn alla sem sóttu um. Skipulagsbreytingar gerðar vegna Covid19, tvær styttri spannir í stað einnar heillar annar eins og verið hefur. Flestir ánægðir með fyrirkomulagið en samt eitthvað um misjafnar upplifanir meðal kennara. Verður gerð könnun í lok seinni spannar. Umsóknartímabil fyrir sérnámsbraut er liðið, innritun 10. bekkinga hefst 8. mars. Fórum í að gera stutt kynningarmyndbönd til að reyna að kynna skólann betur með það að markmiði að reyna að fjölga umsækjendum fyrir haustið. Umræður um innritun á sérnámsbraut, fjölda umsækjenda og fjölda á brautinni. Spurt var um hvernig tekið er á móti 10. bekkingum þegar þau koma í heimsókn. Guðrún lýsir fyrirkomulaginu í heimsóknum og segir frá Opnu húsi, verður haldið 17. mars.

2. Fjármál
Ekki búið að gera upp árið 2020, fjármálstjórinn segir að við séum vel innan marka. Fengum heldur minna fjármagn fyrir þetta ár en við gerðum ráð fyrir. Heldur færri nemendur núna en áður, minni yfirvinna og aðeins fækkað í kennarahópnum.

3. Ytra mat
Ytri úttekt var gerð á skólanum haustið 2019, tveir úttektaraðilar sem sjá um þetta fyrir hönd menntamálaráðuneytisins og menntamálastofnunar. Kemur mjög vel út fyrir okkur. Fengum nokkrar ábendingar um það sem betur má fara. Sem dæmi þá mætti vera meira samstarf við grunnskólana í bænum. Við erum meðvituð um það og höfum gert ýmislegt til að stuðla að því en það hefur stoppað einhverra hluta vegna. Héldum samstarfsfund í Brúarlandi, buðum upp á áfanga fyrir 10. bekkinga. Fengum líka ábendingu vegna brotthvarfs. Höfum verið að gera ýmislegt í þeim málum en má alltaf gera betur. Einnig var okkur bent á að innra matið mætti snúa betur að leiðsagnarnáminu hjá okkur. Höfum ekki verið alveg nógu dugleg að meta það eitt og sér. Fengum líka ábendingu um að efla hlutverk skólaráðs. Við höfum lítið nýtt okkur skólaráð nema fyrir áminningarferlið. Mættum virkja það til fleiri starfa t.d. til skrafs og ráðagerða. Að lokum var að virkja foreldra betur í ýmis konar samstarfs.

4. Jafnlaunavottun

5. Önnur mál
Nýr vefur!
Umræður um hestakjörsviðið.

Fundi slitið kl. 18:20
Fundargerð skrifaði Inga Þóra Ingadóttir

 

Dags: 16.11.2020
Fundarstaður: FMOS
Mættir: Guðrún Guðjónsdóttir, Elísabet S. Ólafsdóttir, Helga Jóhannesdóttir, Inga Þóra Ingadóttir, Kolbrún Reinholdsdóttir, Mikael Rafn L Steingrímsson og Sigríður Johnsen.

Dagskrá:
1. Innritun á haustönn
2. Nýir starfsmenn
3. Fjármál
4. Önnur mál


1. Innritun á haustönn
Guðrún fór yfir tölur um innritun en á haustönn 2020 voru 350 nemendur innritaðir eftir 3 vikur:

  • 57 nemendur innrituðust beint úr grunnskóla,
  • 11 nemendur yngri en 18 ára og
  • 51 nemandi eldri en 18 ára.

Dreifing nemenda á brautir er þannig að lang flestir eru á Opinni stúdentsbraut – almennu kjörsviði. Gamla Opna stúdentsbrautin er að hverfa þar eru bara 12 nemendur sem eiga eftir að klára. Búið er að loka Opinni stúdentsbraut – listakjörsviði en þar eru 11 nemendur skráðir. Sérnámsbrautin er mun stærri en við ætluðum okkur, þar eru nú 18 nemendur. Flestir nemenda okkar eru fæddir 2000-2004 og um helmingur þeirra koma úr Mosfellsbæ. Næst flestir eru úr Grafarvogi. Kynjahlutfallið hefur breyst en stelpur eru orðnar fleiri í skólanum en strákar.
Önnin hefur gengið ágætlega þó má greina þreytu í kennurum, það er auka álag að breyta úr staðkennslu yfir í fjarkennslu. Guðrún sagði frá því að svo til allt bóklegt nám er og hefur verið í fjarkennslu þessa önnina en listgreinar, hestagreinar og sérnámsbraut hafa fengið kennslu í skólanum. Við prófuðum að hafa blöndu af stað- og fjarkennslu á önninni en það kom ekki vel út þannig að ákveðið hefur verið að við höldum okkur við fjarkennslu út önnina. Það er einfaldara fyrir bæði nemendur og kennara.
Sigríður spurði um hvernig Sérnámsbrautin komi út fjárhagslega þar sem hún er stærri en gert var ráð fyrir. Guðrún sagði frá því að þar sem pressan á að taka nemendur kemur frá MMR þá fylgir fjármagn en vissulega er SÉ brautin dýr í rekstri.
Spurt var um brottfall, hvort það væri meira nú en áður. Guðrún sagði svo ekki vera, það er meira um að nemendur séu að minnka álagið en þau eru ekki að hætta. Þetta hefur einnig komið í ljós á reglulegum föstudagsfundum með menntamálaráðherra og skólameisturum að sama er að gerast í öðrum skólum. Viðhorfskönnun á haustönn sýndi að nemendum okkar líði ágætlega og áhugavert að sjá að þeir eru frekar duglegir að hreyfa sig. Gegnum gangandi kvarta nemendur helst undan álagi í námi sem þeim finnst vera meira núna í fjarnáminu en vanalega í staðnáminu.

2. Nýir starfsmenn
Ráðið var í stöðu náms- og starfsráðgjafa í afleysingum fyrir Svanhildi Svavarsdóttur sem er í námsleyfi og var Aðalsteinn Árnason ráðinn. Hann var nemi í náms- og starfráðgjöf hjá Ingu Þóru og Svanhildi fyrir tveimur árum. Einnig var ráðinn nýr íslenskukennari í staðinn fyrir Sverri Árnason sem hætti fyrir tveimur árum, hún heitir Kristrún Hildur Bjarnadóttir og var kennaranemi hér í FMOS í fyrra. Auður Hrólfsdóttir sem hefur gegnt stöðu deildarstjóra Sérnámsbrautar frá 2010 hætti sem deildarstjóri sl. haust og sinnir nú kennslu á brautinni fram að áramótum þegar hún mun hætta störfum vegna aldurs. Nýr deildarstjóri á Sérnámsbraut er Elín Eiríksdóttir, kennari á brautinni. Tveir kennarar munu koma aftur til starfa um næstu ármót eftir leyfi, þ.e þær Karen Woodrow og Sigrún Theódóra Steinþórsdóttir. Ívar Rafm Jónsson, sálfræðikennari, fer í leyfi um áramótin vegna doktorsnámsins síns. Við sjáum fyrir okkur að við gætum þurft að brúa bilið í raungreinum í eina önn og ætlum okkur að leysa það með einum af kennaranemunum okkar. Fleiri breytingar verða ekki.

3. Fjármál
Guðrún sagði að reksturinn komi ágætlega út. Við vorum að skila af okkur fjárhagsáætlun fyrir næsta ár, þá kom ljós að afgangspeningar frá 2018 sem búið var að óska eftir að yrðu fluttir yfir á 2019 en heyrðist aldrei frá verða fluttir að hluta til yfir á næsta ár, 2021. Horfum frekar björtum augum til næsta árs.
Mötuneytið hefur verið lokað stóran hluta þessarar annar og því lítið um innkaup, vorum með matsölu fyrir kennara í byrjun annar en ekki fyrir nemendur vegna Covid. Það er krafa um það frá ráðuneytinu okkar að við reynum að finna allar mögulegar leiðir til að geta haft nemendur í húsi á næstu önn og þá verðum við að geta haft mötuneytið opið.

4. Önnur mál
Sigríður spurði um útskrift. Guðrún sagði að erfitt væri að segja til um það, við verðum að bíða og sjá en vonum að við getum haft allan útskriftarhópinn í einu þótt við gætum þurft að tvískipta þeim.
Mikael spurði um andlega heilsu nemenda og hvernig væri með náms- og starfsráðgjöf og sálfræðiþjónustu. Guðrún sagði að það væri vissulega meira álag á náms- og starfsráðgjafann en hann er duglegur að hringja í nemendur, bæði þá sem standa höllum fæti og þá sem gengur vel. Hún vísaði aftur í könnunina um líðan nemenda sem kom ágætlega út.
Spurt var um félagslífið. Inga Þóra sagði frá því að nemendafélagið hefði staðið fyrir rafrænum hittingi sl. föstudagskvöld þar sem þeir sem mættu spiluðu saman tölvuleik. Það voru um 20 nemendur sem mættu og þeir sem við höfum heyrt í skemmtu sér vel.


Fundi slitið kl. 17:50
Fundargerð skrifaði Inga Þóra Ingadóttir