Dags: 18.03.2024
Fundarstaður: FMOS
Mættir: Anna Sigríður Guðnadóttir, Guðrún Guðjónsdóttir, Halla Karen Kristjánsson, Helga Jóhannesdóttir, Sigríður Johnsen, Sigmar Vilhjálmsson, Valgarð Már Jakobsson.
Dagskrá:
1. Innritun á vorönn
2. Fjármál
3. Vangaveltur um brautir
4. Önnur mál
1. Innritun á vorönn
Nemendafjöldi á vorönn 2024 er 208 og Opna stúdentsbrautin er fjölmennust.
2. Fjármál
Niðurstaða rekstrarársins 2023 er að hallinn er 0,3% sem verður að teljast mjög gott og er þetta töluvert lægra en það sem stefndi í. Mögulega spilar þar inn viðbótarframlag vegna nemanda sem var tekinn inn á sérnámsbraut síðast liðið haust. Aðgerðirnar sem farið var í varðandi minni yfirvinnu, samkennslu o.fl. er einnig að skila sér. Nýir rammasamningar eru líka að skila miklu varðandi rekstur mötuneytisins.
3. Vangaveltur um námsbrautir
Undanfarið hefur farið fram vinna við að einfalda og samræma stúdentsbrautirnar. Framvegis verður sameiginlegur kjarni á öllum brautum. Stærsta breytingin er að Náttúruvísindabrautin verður lögð niður og stað hennar kemur Umhverfis- og líffræðibraut. Það hefur verið mjög erfitt lengi að halda úti þeim áföngum sem tilheyra Náttúruvísindabrautinni og það virðist vera að þessi vandræði séu í fleiri skólum. Nemendur hafa alltaf sótt mest í umhverfisfræði og líffræði og vonandi munu þeir sækja í þessa braut.
Ráðuneytið hefur óskað eftir því að við setjum upp braut fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku, íslenskubraut eins og Tækniskólanum, og vinna við það er að fara í gang hér innan húss. Heilmikil þekking er til staðar í starfsmannahópnum og það er mikill áhugi í hópnum.
Ráðuneytið hefur einnig óskað eftir því að við tökum á móti allt að 10 sérnámsbrautarnemendum á sérstaka braut þar sem nemendur þurfa á sértækum úrræðum að halda og reiknað er með tveimur starfsmönnum með hverjum nemanda. Við vorum beðin um að svara fýsileikakönnun og niðurstaðan úr henni var að við töldum okkar húsnæði ekki henta þessari starfsemi, við búum ekki yfir þeirri sérþekkingu sem þarf og samlegðin við aðra starfsemi yrði engin. Engu að síður fengum við þetta verkefni í fangið og eftir páska verður hafist handa við að finna brautinni stað og teikna upp þær breytingar sem þarf að gera á húsnæðinu.
Fyrir utan allar þessar breytingar sem eru í farvatninu þá verður auglýst eftir skólameistara á næstunni og óvíst hvað gerist í framhaldinu.
Miklar umræður sköpuðust um hagkvæmni og skynsemi þess að ný sérnámsbraut yrði hér. Hvort ekki væri skynsamlegra að nýta alla krafta í það sem skólinn stendur fyrir og gerir vel og mun t.d. augljóslega nýtast á íslenskubrautinni en ekki á nýrri sérnámsbraut. Er örugglega verið að hugsa dæmið til enda, verður örugglega nægilegt pláss í skólanum þegar íslenskubrautin verður komin í fulla stærð. Niðurstaðan eftir þessar umræður var að skólanefndin ætlar að álykta um málið og fá samtal við ráðherra.
4. Önnur mál
Engin önnur mál
Fundi slitið kl. 18:40
Fundargerð skrifaði Guðrún Guðjónsdóttir
Dags: 11.12.2023
Fundarstaður: FMOS
Mættir: Anna Sigríður Guðnadóttir, Guðrún Guðjónsdóttir, Halla Karen Kristjánsson, Helga Jóhannesdóttir, Sigríður Johnsen, Sigmar Vilhjálmsson, Valgarð Már Jakobsson.
Dagskrá:
1. Fjármál
2. Íslensku menntaverðlaunin
3. Vangaveltur um námsbrautir
4. Útskrift
5. Önnur mál
1. Fjármál
Valgarð sýnir yfirlit yfir skiptingu rekstrarkostnaðar, stóru þættirnir eru launin og húsaleiga. Launakostnaður hefur lækkað frá fyrra ári sem er bæði vegna fækkunar starfsmanna og minni yfirvinnu. Húsaleigukostnaður hefur hins vegar hækkað á milli ára. Áætlað rekstrartap er 25 milljónir í lok árs. Nefndarmenn eru sammála um að þetta sé þrátt fyrir allt góður árangur. Rætt um að það margir framhaldsskólar séu í erfiðleikum í rekstri þetta árið og í framhaldinu spurði Anna Sigríður um sameiningaráform. Valgarð svarar því að öllum áformum um sameiningar hafi verið ýtt út af borðinu og því hafi verið lofað að meira fjármagn yrði sett í skólana. Í ljós kom að 300 milljónum var bætt við sem er ekki mikið í stóra samhenginu.
2. Íslensku menntaverðlaunin
Starfsmenn FMOS eru afskaplega stoltir að hafa fengið verðlaunin. Umræður um það hvort þetta muni hafa áhrif á aðsókn í skólann. En einnig var rætt um að gott félagslíf virðist vera stór þáttur í vinsældum skóla.
3. Vangaveltur um námsbrautir
Valgarð segir frá því að ýmsar hugmyndir eru gangi varðandi breytingar á brautum skólans og hópurinn þróa þær hugmyndir á næstu önn. Einnig hefur komið upp sú hugmynd að setja í gang braut fyrir nemendur með erlendan bakgrunn og nefndarmenn eru mjög fylgjandi þeirri hugmynd. Í framhaldi af þessari umræðu var rætt vítt og breytt um skólakerfið, breytingar í samfélaginu o.fl.
4. Útskrift
Útskriftarhátið FMOS verður miðvikudaginn 20.12. kl. 14 og kaffi á eftir fyrir starfsfólk og skólanefnd.
5. Önnur mál
Engin önnur mál.
Fundi slitið kl. 18:25
Fundargerð skrifaði Guðrún Guðjónsdóttir
Dags: 18.09.2023
Fundarstaður: FMOS
Mættir: Anna Sigríður Guðnadóttir, Guðrún Guðjónsdóttir, Halla Karen Kristjánsson, Helga Jóhannesdóttir, Kolbrún Reinholdsdóttir, Sigríður Johnsen, Sigmar Vilhjálmsson, Sigurður Óli Karlsson, Valgarð Már Jakobsson.
Dagskrá:
1. Kosning formanns
2. Innritun á haustönn
3. Starfsmannabreytingar
4. Fjármál
5. Heimsókn mennta- og barnamálaráðherra í FMOS
6. Önnur mál
1. Kosning formanns
Lagt til að Sigríður verði áfram formaður skólanefndar og það er samþykkt með lófaklappi.
2. Innritun á haustönn
Farið yfir tölulegar upplýsingar um innritunartölur, aldur nemenda í FMOS og hvaðan þeir koma. Aldurssamsetningin hefur breyst mikið og nú eru þrír yngstu árgangarnir fjölmennastir og lítið er um eldri nemendur miðað við hvernig var á fyrstu árum skólans. Rúmlega 50% nemenda koma úr Mosfellsbæ og hefur það haldist nokkuð stöðugt frá upphafi. Næst fjölmennasti hópur nemenda kemur síðan úr Grafarvogi og Grafarholti. Umræður um hestabrautina og bent á sérstöðu skólans þar og mikilvægi þess að halda þessari sérstöðu á lofti.
3. Starfsmannabreytingar
Breytingar á stjórnunarteyminu eru þær að Valli er settur skólameistari út janúar á næsta ári og Guðrún sinnir starfi aðstoðarskólameistara á meðan. Inga Þóra er áfangastjóri eins og áður. Ingveldur Lilja Hjálmarsdóttir var ráðin 1. ágúst til að leysa Öglu skólaritara af, hún er í veikindaleyfi. Elísa, kennari á sérnámsbraut lét af störfum í vor og hefur því fækkað um einn kennara á sérnámsbraut.
4. Fjármál
Farið yfir stöðuna í fjármálum, ýmislegt jákvætt þar m.a. hefur dregið verulega úr launakostnaði með minnkandi yfirvinnu og breytingum á vinnumati sérnámsbrautar. Það lítur út fyrir að halli verði innan við 5% í lok árs sem er innan marka. Sigríður hrósaði stjórnendum fyrir tiltektina í rekstri skólans og spurði jafnframt hvort sparnaðurinn hefði mikil áhrif í starfsmannahópnum. Helga svaraði og sagði alla starfsmenn meðvitaða um stöðuna og viljuga til að leggja sitt að mörkum. Einnig var rætt um viðhald á skólanum sem ríkiseignir sjá að mestu um, stundum þarf skólinn að taka þátt í kostnaði en allt fer í gegnum ríkiseignir. Rætt var um möguleika skólans á að leigja út húsnæði til að afla tekna, það hefur verið gert í einhverju mæli, fundahöld á vegum Mosfellsbæjar, aðalfundir húsfélaga o.fl.
5. Heimsókn mennta- og barnamálaráðherra í FMOS
Valgarð segir frá því að til stóð að mennta- og barnamálaráðherra kæmi í heimsókn í FMOS í dag, þeirri heimsókn hefur verið frestað til 9. október. Við reiknum með tilgangur heimsóknarinnar sé meðal annars að ræða um samstarf/sameiningu við aðra skóla. Við erum tilbúin í þessar viðræður og erum með ýmsar hugmyndir sem gætu eflt skólastarfið auk þess við munum leggja áherslu á sérstöðu skólans.
Styrkleikar og sérstaða skólans:
Kennsluhættir/leiðsagnarnám
Mikil reynsla af að mæta breiðum nemendahópi
Hestabraut
Hugmyndir til að efla skólann:
Samvinna við verknámsskóla þar sem FMOS sæi um bóklega kennslu verknámsnema
Vera með verknám sem ekki krefst mikils tæknibúnaðar og hentar húsnæðinu
Efla afreksíþróttabraut, hugsanlega í samvinnu við annan skóla
Bjóða upp á öflugt nám fyrir nemendur af erlendum uppruna/flóttafólk. Þetta væri hægt að útfæra í samvinnu við Mosfellsbæ
Fablab í samvinnu við Mosfellsbæ/grunnskólana
6. Önnur mál
a) Spurt hvort 10. bekkur úr Mosfellsbæ standi til boða að taka áfanga hjá okkur. Það hefur verið reynt en ekki alveg gengið upp, líklega er aðalástæðan sú að við viljum gjarnan fá þau hingað í húsið í tíma vegna okkar kennsluaðferða og það hentar ekki alltaf inn í þeirra stundatöflu.
b) Óskað eftir því að skólanefnd fái að sjá hugmyndir stjórnenda að því hvernig efla megi skólann fyrir heimsókn ráðherra þann 9.10. Ákveðið að setja hugmyndirnar inn í fundargerðina, sjá hér að ofan.
Fundi slitið kl. 18:20
Fundargerð skrifaði Guðrún Guðjónsdóttir