Útskriftarhátíð Framhaldsskólans í Mosfellsbæ fór fram miðvikudaginn 25. maí við hátíðlega athöfn í húsnæði skólans við Háholt 35 í Mosfellsbæ.
Að þessu sinni voru 24 nemendur brautskráðir. Af félags- og hugvísindabraut voru brautskráðir tveir nemendur og fjórir af náttúruvísindabraut. Af opinni stúdentsbraut voru brautskráðir sextán nemendur þar af voru tveir af hestakjörsviði, tveir af listakjörsviði, einn af íþrótta- og lýðheilsukjörsviði og einn af handboltakjörsviði. Tveir nemendur voru brautskráðir af sérnámsbraut.
Viðurkenningu frá Mosfellsbæ fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi fékk Íris Torfadóttir en hún fékk einnig menntaverðlaun Háskóla Íslands auk verðlauna fyrir góðan árangur í spænsku og umhverfisfræði.
Viðurkenningu fyrir góðan árangur í sögu, náttúrufræði og líffræði fékk Aron Ingi Hákonarson og viðurkenningu fyrir góðan árangur í heimspeki fengu Aníta Mjöll Hallfreðsdóttir og Sigrún Sól Hannesdóttir. Hera Björg Ingadóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í dönsku, spænsku og umhverfisfræði, Viðurkenningu fyrir góðan árangur í ensku og umhverfisfræði fékk Elsa Björg Pálsdóttir en hún fékk einnig viðurkenningu fyrir starf í þágu Nemendafélagsins. Róbert Mikael Óskarsson fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í ensku, stærðfræði og raungreinum. Í listgreinum fékk Aníta Mjöll Hallfreðsdóttir viðurkenningu fyrir góðan árangur.