Opnað hefur verið fyrir umsóknir á Íslenskubraut í FMOS en brautin er fyrir nemendur af erlendum uppruna. Hægt er að sækja um og skoða stöðu umsókna á vef Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu.
Nemendur með annað móðurmál en íslensku hafa ólíkan bakgrunn hvað varðar nám, menningu og tungumál. Þeir hafa mismikla undirstöðu í eigin tungumáli, læsi og námi og eru því misjafnlega undirbúnir til að takast á við nýtt tungumál í nýju umhverfi. Þeir hafa einnig verið mislengi á Íslandi og fengið ólík tækifæri til að kynnast íslenskri tungu. Með námi á brautinni er stefnt að því að opna möguleika nemenda á frekara námi við íslenska framhaldsskóla og að þeir verði sem best í stakk búnir til að taka virkan þátt í íslensku, lýðræðislegu þjóðfélagi.
Brautin er opin öllum nemendum af erlendum uppruna sem hafa náð framhaldsskólaaldri, hver svo sem námslegur bakgrunnur þeirra er. Námið á brautinni er fjórar annir og er megináherslan á íslenskukennslu. Nánari upplýsingar um skipulag brautarinnar má finna hér.
Við hlökkum til að takast á við þetta spennandi verkefni.