Í síðustu viku tóku nokkrir vaskir nemendur að sér að setja upp jólatréð okkar og skreyta og þá má segja að jólin séu komin í FMOS. Á föstudaginn, 1. desember, var svo dimmisjón hjá útskriftarhópnum. Dagurinn byrjaði á dásemdar bröns í matsalnum à la Inga Rósa þar sem útskriftarnemar og starfsfólk gæddu sér á eggjum, beikoni, brauði, reyktum laxi og alls konar góðgæti eins og hver gat í sig látið. Síðan héldu útskriftarnemar út í daginn og fögnuðu með ýmsu sprelli eins og þeirra er von og vísa. Í dag er svo síðasti kennsludagur fyrir verkefnadaga og við fáum jólamat í hádeginu. Þá klæðum við matsalinn í jólabúning með rauðum dúkum, kertum og servíettum, setjum jólatónlist á fóninn og kveikjum á arineldi á tjaldinu. Inga Rósa og Auðbjörg eru búnar að standa í ströngu í eldhúsinu þannig að við eigum von á góðu.