Háskóladagurinn 2025

Háskóladagurinn 2025 verður haldinn í Reykjavík 1. mars næstkomandi. Í kjölfarið munu svo háskólar landsins ferðast á þrjá staði á landsbyggðinni að kynna námsframboð og námsleiðir sínar. Þann 10. mars verður Háskóladagurinn á Höfn, 11. mars á Egilsstöðum og svo 12. mars á Akureyri.

Kynningar fara fram í Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Listaháskóla Íslands í Stakkahlíð. Hinir Háskólarnir verða með kynningar í þessum þremur skólum nema Háskólinn á Hólum verður einungis á Háskólatorgi Háskóla Íslands og Háskólinn á Akureyri verður á Háskólatorgi Háskóla Íslands og í Háskólanum í Reykjavík. Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík verða með kynningarnar sínar í eigin húsakynnum.

Háskóladagurinn hefur fest sig í sessi í íslensku samfélagi í yfir áratug en tilgangur hans er að kynna tilvonandi háskólanemum og öðrum áhugasömum fjölbreytt námsframboð og námsleiðir sem eru í boði á Íslandi. Allir háskólar landsins standa að Háskóladeginum en þeir eru Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum, Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskólinn á Bifröst, Háskólinn í Reykjavík og Listaháskóli Íslands.

Háskóladagurinn er samstarfsverkefni allra háskóla á landinu og er ómissandi fyrir mörg sem hyggja á háskólanám enda frábært tækifæri til að spjalla við vísindamenn, kennara og nemendur um allt sem viðkemur mögulegu námi í framtíðinni. Öll áhugasöm eru hvött til að mæta og kynna sér námsframboð og þjónustu háskólanna.

Vert er að geta þess að Hopp býður upp á fríar ferðir á Háskóladaginn ef fólk leggur í Hoppstæði við Grósku, HÍ, HR eða LHÍ Stakkahlíð.