Góðan og blessaðan bleika föstudaginn. Síðasta vetur myndaði ég mig við að skrifa reglulega föstudagspistla til að segja frá því helsta sem er að frétta úr skólastarfinu hér. Ég tók við sem skólameistari nú í haust af Guðbjörgu og mun gegna þeirri stöðu alla vega út þennan vetur. Það getur verið annasamt að koma sér inn í nýtt starf og því er ég búinn að ýta því á undan mér að byrja að skrifa pistla aftur. En nú er kominn tími til að sparka mér í gang á ný og stefni ég á að koma frá mér föstudagspistli hálfsmánaðarlega. Síðasta vetur var alltaf frábært veður úti þegar ég skrifaði pistlana mína en nú er svo ég segi það nú bara eins og það er … skítaveður. Ég vona að það leggi ekki línurnar fyrir framhaldið. Veðrið er búið að vera svo ömurlegt að nemendur sem í gær voru á leiðinni til London með Harry Potter – áfanganum sem þau eru í, lentu í því að ferðinni var hreinlega aflýst vegna veðurs. Sem betur fer tókst enskukennurunum sem með þeim fara, Björk og Helenu, að finna nýja dagsetningu á önninni svo ferðin verður farin.
Haustið er búið að vera viðburðarríkt að vanda. Það hefur verið einstaklega góður vinnuandi meðal nemenda og kennarar muna vart eftir öðru eins. Ef ég ætlaði að telja upp allt það merkilega sem gerst hefur á þessu hausti þá tæki það margar blaðsíður svo ég ætla að stikla aðeins á stóru og svo fylla upp í götin þegar líður á haustönnina.
Fjölmargir erlendir gestir hafa heimsótt okkur á haustönninni og það er alltaf sama viðkvæðið að fólk er agndofa yfir húsinu og kennsluaðferðum okkar. En það eru ekki bara erlendir gestir sem hafa heiðrað okkur með heimsókn í haust. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kom í heimsókn í FMOS þann 9. október ásamt fríðu föruneyti úr ráðuneytinu. Þau dásömuðu skólastarfið og vilja gjarnan koma að því að efla skólann enn frekar. Þetta blés okkur byr í brjóst og hvetur okkur áfram til góðra verka. Mig langar líka að segja frá því að þegar gestirnir okkar ræða við nemendur þá tala þau svo fallega um skólann sinn og kennarana sína að maður fær gæsahúð. Hér er sama hvort um erlenda eða innlenda gesti er að ræða og mér líður eins og ég þurfi að fullvissa þau um að ég hafi ekki plantað nemendunum í gangveginn þeirra eða þjálfað þau í hvað þau eigi að segja.
Þann 5. október, var skólinn okkar tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna. FMOS er einn fimm skóla sem er tilnefndur til verðlaunanna í ár í flokknum framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur. Verðlaunin verða síðan veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í nóvember svo við bíðum spennt eftir því hvort við verðum fyrir valinu. Það yrði frábær vítamínsprauta inn í það frábæra starf sem hér er unnið.
Nemendur og nemendafélagið hafa verið öflug að vanda og eru líka að skipuleggja marga spennandi viðburði. Ég ætla að segja betur frá því í næsta pistli þannig að það týnist ekki innan um allt annað. Ég ætla líka að segja frá því hvernig Halla lýðheilsukennari hefur farið fyrir því að gera anddyrið okkar að alls herjar gleðistað þar sem nemendur geta tekið þátt í alls konar afþreyingu, ÁN SÍMA. Mig langar hins vegar að segja frá því núna að í síðustu viku fór Hrafnhildur Tinna Elvarsdóttir, nemandi á íþrótta- og lýðheilsubraut í FMOS, á ræðunámskeið á vegum Den rejsende talerskole. Námskeiðið var haldið í Verslunarskóla Íslands og voru þátttakendur úr ýmsum framhaldsskólum landsins. Á námskeiðinu fengu nemendur þjálfun í því að skrifa og flytja ræður. Nemendurnir voru jafnframt kynntir fyrir ýmsum leiðum til þess að takast á við frammistöðukvíða og stress sem getur fylgt því að koma fram.
Hrafnhildur Tinna flutti öfluga ræðu um staðalímyndir og stóð sig með miklum sóma. Hún segir sjálf að hún hafi lært alveg svakalega mikið á þessum fjórum dögum og kynnst fullt af nýju fólki. Við í FMOS erum mjög stolt af henni fyrir að taka þátt í þessu áhugaverða verkefni. Vel gert Hrafnhildur Tinna!
Næsta vika verður svo heldur betur óhefðbundin hér í FMOS. Á mánudag fara nýnemar í hópeflisferð með lífsleiknikennurum sínum og á þriðjudag verður mikil röskun á skólastarfi þegar konur og kvár leggja niður vinnu til að mótmæla launaójöfnuði. Við strákarnir stöndum að sjálfsögðu vaktina hér í húsi og styðjum við baráttuna. Á fimmtudag og föstudag fellur svo kennsla niður þar sem við förum í haustfrí.
Ég ætla nú að berjast í gegnum regnið á hjólinu mína og rúlla inn í helgina. Góða helgi og kannski er bara ráð að ferðast innanhúss um helgina. Vonandi framkalla ég ekki áfallastreituröskun með þessum lokaorðum 😊