Föstudagspistill Valla
Föstudagur og nú styttist heldur betur í annan endann á önninni. Það má segja að þetta hafi verið síðasti hefðbundni föstudagur annarinnar. Næsta föstudag er dimmisjón hjá útskriftarnemum og svo byrja verkefnadagar 1. des. Þá breytist stundataflan og nemendur eru í lengri lotum í hverju fagi síðustu tvær vikur annarinnar. Við ætlum reyndar að breyta fyrirkomulaginu á vorönninni en þá verða nokkrar nýjungar í dagatali annarinnar. Meðal þess sem breytist er að í lok næstu annar verða bara fjórir verkefnadagar en fjórir dagar verða notaðir í uppbrot hér og þar á önninni. Annað sem við ætlum að prófa á næstu önn er að vera með fjarkennsluviku um mánaðarmótin janúar/febrúar. Þá mun öll kennsla fara fram á netinu en okkur þykir mikilvægt að missa ekki niður þá færni sem við öðluðumst í Covid faraldrinum. Það verður spennandi að sjá hvernig til mun takast.
Í vikunni fékk ég að fara í heimsókn í lífsleiknitíma hjá sérnámsbrautinni en ég var búinn að frétta að Natan Ernir væri uppfullur af hugmyndum um það hvernig gera mætti kennsluna skemmtilegri. Ég datt heldur betur í lukkupottinn því eftir mjög líflegt spjall við hópinn fékk ég að taka þátt í hláturjóga. Það er langt síðan ég hef skemmt mér svona vel og hvort sem það var hláturjóganu að þakka eða bara almennri gleðinni í stofunni þá leið mér stórkostlega það sem eftir lifði dags. Líklega var það blanda af hvoru tveggja.
Í vikunni höfum við verið á fullu að taka matsviðtöl en það er hluti af gæðakerfi skólans. Á hverri önn er um þriðjungur kennara í kennslumati. Þá heimsækja stjórnendur alla hópa þeirra til að spjalla við nemendur um kennsluna og fleira. Það hafa komið upp raddir á á næstum öllum matsfundum þar sem nemendur lýsa óánægju sinni með að ekki megi hafa skilafresti á verkefnum lengur en til klukkan 22 á kvöldin. Þetta kemur illa við marga nemendur sem eru í vinnu með skóla eða stunda íþróttaæfingar á kvöldin. Við erum alltaf tilbúin að taka til greina ábendingar frá nemendum og á kennarafundi í gær ákváðum við að bregðast við þessu og nú mega kennarar hafa frjálsar hendur varðandi skilafresti.
Miðstöð íslenskra bókmennta hefur undanfarið verið með verkefni sem ber heitið höfundaheimsóknir í framhaldsskóla. Rithöfundar heimsækja þá framhaldsskóla til að kynna starf rithöfunda og til að hvetja til lestrar. Á fimmtudag heimsótti Sigríður Hagalín Björnsdóttir íslenskutíma hjá Hrafnhildi. Ég fékk að lauma mér inn aftast til að hlusta á nemendur spyrja hana um allt milli himins og jarðar. Frábært verkefni og Sigríður var alveg frábær í að svara annars krefjandi spurningum nemenda. Sigríður spjallaði líka við hóp af sérnámsbrautinni og það heppnaðist jafn vel að mér skilst.
Þá er ég hættur í bili, heyrumst í næstu viku, kveðja Valgarð (Valli) aðstoðarskólameistari.