Það er kominn föstudagur, fimmti föstudagur septembermánaðar og fimmti föstudagspistillinn. Þetta gerist bara einu sinni á 200 ára fresti! Nei bara grín, þetta gerist að meðaltali fjórum sinnum á ári svo öfugt við það sem Facebook er stundum að segja okkur þá er þetta bara alls ekkert merkilegt. Meira að segja gerist það að meðaltali einu sinni á ári að við fáum fimm föstudaga, laugardaga og sunnudaga í sama mánuði.
Það er búið að vera mikið um að vera í vikunni. Fjölmargir viðburðir tengdir hreyfingarátakinu „Be active“ hafa farið fram hér í skólanum og utan hans. Nemendur hafa spreytt sig í alls kyns áskorunum í verkefnatímum svo sem bekkpressu og fleira. Á miðvikudag fengum við fyrirlesara í heimsókn sem hluti af átakinu. Margrét Lára Viðarsdóttir, sálfræðingur og knattspyrnugoðsögn kom til okkar í hádeginu og fjallaði um forvarnir fyrir líkamlegt og andlegt heilbrigði. Seinna um daginn kom Pálmar Ragnarsson og fjallaði um jákvæð samskipti. Nemendum sem og öðrum bæjarbúum hefur svo staðið til boða að prófa alls konar íþróttir hjá Aftureldingu. Það var nú líka bara til að auka á gleðina að lið Aftureldingar skyldi hafa náð í sinn fyrsta sigur í Olísdeildinni í gærkvöldi. Þegar ég kíkti í höllina um daginn sá ég einmitt fjóra fyrrverandi nemendur í FMOS inná í sömu sókninni. Það gladdi nú aðstoðarskólameistarann. Til hamingju UMFA.
Hópurinn okkar sem er á ráðstefnunni „Nordic Camp – stand up for human rights“ í Kaupmannahöfn er heldur betur að slá í gegn. Þau halda uppi frábærri stemningu og eru skóla sínum, landi og þjóð til mikils sóma. Fyrstu þrjá dagana tóku nemendur okkar þátt í umræðum og vinnustofum með nemendum frá Norðurlöndunum ásamt Kanada og ræddu m.a. um hvernig hægt er að auka meðvitund og þekkingu ungs fólks á mannréttindum. Fulltrúar frá Rapolitics and the Danish institute for human rights komu og héldu fyrirlestur um það hvernig hægt væri að koma boðskapnum áleiðis í gegnum rapp og hipp hopp og vakti það mikla lukku. Nemendur eru búnir að fara í nokkrar skoðunarferðir um Kaupmannahöfn og umhverfi. Í þrjá daga hafa nemendur okkar svo verið í heimsókn við Niels Brock framhaldsskólann í Kaupmannahöfn og taka þar þátt í umræðum og vinnustofum um mannréttindi. Dóra dönskukennari sem fer fyrir hópnum segist vera að springa af monti hvern dag.
Á miðvikudag fengum við ansi skemmtilega heimsókn frá tékknesku skólafólki. Þau komu frá framhaldsskóla í Tékklandi þar sem verið er að vinna að því að innleiða leiðsagnarnám eins og við stundum hér í FMOS. Skólinn Gymnazium Hranice er svipaður að stærð og FMOS og bærinn Hranice álíka stór og Mosfellsbær. Skemmst er frá því að segja að þau áttu vart orð yfir því hvað húsið væri fallegt og öll aðstaða til fyrirmyndar. Þar að auki fannst þeim áberandi hvað kennurum og nemendum liði vel. Þau hafa því beðið um að vera í nánari tengslum við okkur til að fá hjálp við að innleiða leiðsagnarnám hjá sér.
Hjúkrunarfræðingurinn okkar hún Lilja Dögg Ármannsdóttir er að ná fótfestu hjá okkur og nemendur byrjaðir að nýta þjónustu hennar. Hún er boðin og búin til að ráðleggja nemendum með alls konar mál sem þeir eru að glíma við. Lilja er hjá okkur eftir hádegi alla miðvikudaga milli 13 og 16.
Á fimmtudaginn var þróunarvinnudagur kennara í lok dags. Skólaþróun er nauðsynlegur hluti af góðu skólastarfi því að ef við erum ekki í stöðugri sjálfsskoðun og þróun þá stöðnum við. Í þetta sinn var rýnt í verkefnadaga og framkvæmd þeirra. Eins og við var að búast þá komu fram margar frábærar hugmyndir um hvernig væri hægt að bæta verkefnadaga. Það er alveg einstakt að vinna með svona frjóu samstarfsfólki.
Njótið helgarinnar!