Í þessari viku fóru tvö skemmtileg verkefni í gang sem mig langar að segja aðeins frá.
Í fyrsta lagi fengum við frækinn flokk kennaranema í hús á þriðjudagsmorgunn en þau verða með okkur í vetur sem hluti af kennaranámi sínu. Þau munu fylgjast með kennslu undir handleiðslu kennara hér í FMOS og fá svo að spreyta sig aðeins sjálf í kennslunni. Þeir kennaranemar sem hafa komið til okkar undanfarin ár hafa upp til hópa verið mjög ánægðir með dvöl sína hér enda erum við að nota þær kennsluaðferðir sem þau eru að læra á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Það er náttúrulega engin tilviljun að við notum leiðsagnarnám, þar sem verkefni eru unnin jafnt og þétt undir handleiðslu kennara og stöðugu samtali, í stað stórra lokaprófa. Rannsóknir styðja við okkar hugmyndafræði og við höfum tröllatrú á því sem við erum að gera. Það verður gaman að fylgjast með kennaranemunum í vetur.
Annað verkefni sem fór í gang í vikunni er rýnihópur nemenda. Undanfarna tvo vetur höfum við fengið nemendur til að aðstoða okkur við að gera góðan skóla betri. Þetta er hluti af sjálfsmati skólans og tilgangurinn er að fá sýn nemenda á ýmis mál er varðar kennsluna, þjónustuna eða skipulag skólans. Nemendur fá svo einingu fyrir sem fer inn á námsferilinn. Á þessum fyrsta fundi fengum við nemendur til að segja skoðun sína á verkefnadögum og hvað mætti bæta og breyta í framkvæmd þeirra. Verkefnadagar hafa lengi verið við lýði í FMOS síðustu tvær vikur hverrar annar en þá er stundatöflunni breytt til þess að hægt sé að vinna stærri lokaverkefni í hverjum áfanga.
FMOS er UNESCO skóli en það þýðir að við erum formlega hluti af námsneti Sameinuðu þjóðanna.. Við höldum reglulega viðburði sem tengjast heimsmarkmiðum SÞ og hefur það verið skemmtileg viðbót við skólastarfið. Hópur frá FMOS var að leggja af stað til Kaupmannahafnar á ungmennaráðstefnu UNESCO á Norðurlöndum undir heitinu „Stand up for human rights“ sem stendur frá 24. september – 1. október. Markmið ráðstefnunnar er að auka þekkingu ungs fólks á mannréttindum og bera saman stöðu milli nágrannaþjóðanna. Dóra dönskukennari fer fyrir hópnum en þessi mynd náðist af krökkunum í Leifsstöð við bröttför. Þau eru frá vinstri: Matthildur Sela Albertsdóttir, Kristján Brjánsson, Arnaldur Daðason og Sávia Guimaraes. Á ráðstefnunni eru nemendur frá Noregi, Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi og Kanada auk Íslendinga og gestgjafanna frá Danmörku. Við hlökkum til að heyra meira frá hópnum.
Þá er komið að lokum þessa vikuna. Seinni hluti þessa pistils er skrifaður á laugardagmorgni þar sem undirritaður ákvað að fara að eigin ráðum og skella sér í golf í stað þess að eyða góða veðrinu í pistlaskrif. Ég við minna á að í næstu viku er sameiginleg hreyfingarvika í Evrópu sem heitir „Be active“. Við í FMOS tökum þátt í henni en Halla íþróttakennari er búin að vera á fullu að skipuleggja viðburði á hverjum degi næstu viku.
Njótið helgarinnar,
Valli aðstoðarskólameistari.