Föstudagspistill Valla 2. des

Hæ hæ.

Þá er komið að föstudagspistlinum sem að þessu sinni verður í jólaskapi. Jólin hafa verið ansi áberandi í skólanum þessa vikuna. Jólaljós birtust í gluggum á stjórnendaganginum og í byrjun vikunnar fór hópur nemenda í það mikilvæga verk að setja saman og skreyta jólatréð okkar. Jólatréð stendur í anddyrinu okkar og blæs jólaanda í húsið.

 

 

 

 

 

 

Á fimmtudag var jólamatur í hádeginu. Það var vel við hæfi svona á fullveldisdaginn að gera okkur dagamun. Matsalurinn var dúkaður upp í rauðum lit með kerti og servíettur á borðum. Nemendur og starfsmenn sameinuðust í dýrindis jólaveislu að hætti Ingu Rósu, með jólaöli og hamborgarhrygg. Að sjálfsögðu var hnetusteik fyrir þá sem ekki borða kjöt og svo var ísblóm/veganeftirréttur á eftir. Öllu þessu var svo skolað niður með jólaöli. Að sjálfsögðu logaði arineldurinn á tjaldinu og jólatónlistin ómaði. Þetta var rosalega vel heppnað og sérlega skemmtilegt þar sem við höfum ekki getað haldið uppi þessum góða sið undanfarin ár vegna heimsfaraldursins sem við viljum öll gleyma. Það skemmdi heldur ekki fyrir að nemendafélagið var með jólapeysudag svo við sáum margar skemmtilegar jólapeysur við hátíðarborðið.

Á þriðjudaginn fengum við góðan gest en þá kom Árni Kristjánsson ungliða- og aðgerðastjóri Íslandsdeildar Amnesty International í heimsókn til okkar. Hann sagði frá starfsemi A.I. og kynnti undirskriftasöfnunina Þitt nafn bjargar lífi. Það er átak sem snýr að því að fá einstaklinga til að skrifa undir stuðning við einstaklinga sem beittir eru alvarlegum órétti. Þannig safnast milljónir undirskrifta sem hafa áhrif í að beita þrýstingi á stjórnvöld víða um heim sem brjóta mannréttindi. Hægt er að kynnast þessu verkefni nánar og skrifa undir á heimasíðu Amnesty á Íslandi, https://www.amnesty.is/

 

Á fimmtudaginn hófust verkefnadagar hjá okkur í FMOS. Á verkefnadögum er stundatöflunni breytt þannig að nemendur eru í lengri lotum í hverju fagi og yfirleitt eru unnin lokaverkefni þar sem þeir fá tækifæri til að sameina hæfnina sem þeir hafa öðlast á önninni. Í ár tengdu nokkrir kennarar lokaverkefni sín við mannréttindi, enda er alþjóða mannréttindadagur Unesco haldinn hátíðlegur í næstu viku en við erum formlegur Unesco-skóli. Það var því vel við hæfi að Árni hafi heimsótt okkur á þriðjudag. Mig langar í þessu tilliti að segja ykkur frá lokaverkefnum sem verið er að vinna hjá Björk Margrétardóttur í ensku. Nemendur í ensku hafa lesið skáldverk á önninni sem notuð eru sem kveikja að vangaveltum um misrétti og mannréttindi. Í einum áfanga lesa þeir hina margrómuðu To Kill a Mockingbird, eftir Harper Lee, sem lesin hefur verið í menntaskólum landsins áratugum saman. Í öðrum áfanga lesa nemendur Normal People eftir hina írsku Sally Rooney. Í báðum bókum er tekið á áleitnum málum sem skapa grundvöll fyrir djúpar og mikilvægar pælingar um margskonar samfélagsmein sem eru að plaga samskipti fólks enn í dag. Það er frábært að klassískar bókmenntir og samtímabókmenntir hreyfi jafn mikið við ungu fólki í dag og þegar ég var í menntaskóla fyrir rúmum 30 árum. Líklega snýst það um að opna augu nemenda fyrir því hvernig þau geta samsvarað sig við persónur og aðstæður óháð tíma og rúmi. Í næstu viku ætla ég að hlera fleiri kennara varðandi spennandi lokaverkefni sem ég get sagt ykkur frá.

Mig langar svo að enda föstudagspistilinn á því að smella inn einum jólamolanum í viðbót. Ég kom að Öglu í upplýsingamiðstöðinni þar sem hún var í óða önn að pakka inn jólagjöfum til starfsmanna og var að því tilefni búin að koma sér upp leyniskermi til að við sæjum ekki innihald pakkans.

Njótið helgarinnar gott fólk. Ég minni á næsta bíókvöld nemendafélagsins á þriðjudagskvöld en þá á endurtaka leikinn frá því fyrr á önninni og leigja sal í Bíó Paradís til að horfa á mynd saman.  Fyrir okkur fótboltaáhugamenn eru leikar að æsast því 16 liða úrslitin á HM eru að hefjast um helgina. Það verða örugglega margir sem ætla að liggja í sófanum og njóta veislunnar. Verið sæl að sinni

Valli skólameistari