Það er mikil orka í húsinu og greinilegt að nemendur og kennarar eru glaðir að vera innan um fullt af fólki á ný.
Það hefur aðeins borið á því að nemendur hafi átt í erfiðleikum með að komast í gang með Office pakkann sinn, en nemendur fá frían aðgang að honum meðan þeir eru í skólanum og geta hlaðið Excel og Word inn í tölvurnar sínar. Allir nýnemar fá sendan póst frá Agnari kerfisstjóra með yfirskriftinni „Velkomin í FMOS“ og þar kemur fram notendanafn og lykilorð sem nemendur hafa fengið úthlutað. Athugið að nemendur þurfa að vera staddir í skólabyggingunni sjálfri þegar þeir skrá sig inn í fyrsta sinn svo aðgangurinn verði virkur. Við minnum á að síðasta tækifæri sem nemendur hafa til að segja sig úr áfanga er 6. september. Eftir það hafa nemendur skuldbundið sig til að ljúka þeim áföngum sem þeir eru skráðir í.
Á fimmtudag í næstu viku verður nýnemadagur haldinn í skólanum. Þá verður hefðbundin kennsla fyrstu tvo tímana og dagskrá nýnemadagsins hefst kl. 10:30. Nemendaráð skipuleggur daginn þar sem ýmislegt skemmtilegt verður brallað og svo endað á grillveislu. Þetta hefur verið skemmtileg leið til að hrista saman nýnemahópinn og koma þeim inn í félagslífið.
Hjúkrunarfræðingurinn, Lilja Dögg, var hjá okkur í fyrsta skipti nú á miðvikudag en nemendur geta leitað til hennar og rætt við hana ýmis mál. Hún getur leiðbeint með alls konar hluti sem við koma heilsu og vellíðan og er tilbúin að hlusta á það sem ykkur gæti legið á hjarta. Skrifstofan hennar er við hliðina á Svanhildi námsráðgjafa. Hægt er að kíkja við hjá henni milli klukkan 13 og 15 á miðvikudögum en svo verður hægt að bóka tíma milli 15 og 16 með því að senda póst á lilja@fmos.is eða með því að bóka viðtalstíma í gegnum Innu. Leiðbeiningar um hvernig hægt er að bóka tíma finna nemendur undir „Aðstoð“ á Innu.
Kennarar FMOS eru einstaklega frjóir að búa til og bjóða uppá valáfanga sem nemendur geta tekið. Erla raungreina- og umhverfisfræðikennari og Karen hestagreinakennari, eru að kenna valáfanga nú á haustönn sem heitir UMHV3SM05 – Sjálfbærni, matur og meðvituð neysla. Þær hafa verið að kynna fyrir nemendum alls konar mat sem hægt er að nýta úr náttúrunni og eru undanfarna daga búnar að vera í sveppatínslu.
Einnig nýta þær ber og fleira í haustuppskerunni. Seinna á önninni fer svo stór hluti hópsins með kennurum til Ítalíu til að læra meira um sjálfbærni og nýtingu á gæðum náttúrunnar.