Hó hó hó.
Hér kemur síðasti föstudagspistill annarinnar. Í gær byrjuðu verkefnadagar hjá okkur í FMOS en fjóra síðustu dagana breytum við stundatöflunni þannig að nemendur eru í löngum lotum í hverju fagi sem oft er nýtt í að vinna lokaverkefni í áföngunum.
Í Harry Potter áfanganum hafa verið tveir hópar hjá enskukennurunum Björk og Helenu. Í upphafi annar var nemendum skipt upp í vistir af sorteringahattinum og hafa vistirnar verið að keppa innbyrðis í stigasöfnun í gegnum verkefni og svo kölluð „side-quests“. Á verkefnadögum var svo spurningakeppni milli vista þar sem úrslitin í húsbikarnum (e. House-cup) réðst endanlega. Hjá Björk vann Gryffindor en hjá Helenu unnu erkifjendurnir í Slytherin.
Á miðvikudag var síðasti hefðbundni kennsludagurinn og þá var jólamatur að hætti kokksins í hádeginu. Jólaskinka og kalkúnn/kalkúni með tilheyrandi jólameðlæti, malti og appelsíni og svo auðvitað ísblómi í eftirrétt.
Talandi um kalkúna báðar útgáfur hér að framan eru viðurkenndar í íslenskri orðabók. Tilurð nafnsins er hins vegar byggt á misskilningi um uppruna hans en kalkúnar eru upphaflega frá N-Ameríku. Á ensku heitir hann Turkey af því að hann barst fyrst til Englands með tyrkneskum kaupskipum en kalkúnn sem kemur úr dönsku og vísar það nafn til þess að menn héldu að fuglinn væri upprunninn frá Kalkútta á Indlandi. S.s hvoru tveggja er rangt en bragðgóður er hann 😊. Benjamin Franklin barðist fyrir því að kalkúninn yrði gerður að þjóðarfugli Bandaríkjanna í staðinn fyrir skallaörninn en það er spurning hvort þeir myndu hljóta sömu virðingu með kalkúna framan á vegabréfinu sínu.
Það er gleðilegt frá því að segja að í gær var umsóknaraðild okkar að Erasmus+ samþykkt sem þýðir að við getum beitt okkur með markvissari hætti í alþjóðlegu samstarfi. Þar eru margir spennandi möguleikar bæði fyrir nemendur og kennara.
Og meira um alþjóðlegt samstarf. Við erum opinber Unesco skóli en Unesco er fræðsluarmur Sameinuðu þjóðanna. Nú stendur yfir samkeppni meðal ungs fólks þar sem Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi ásamt Icelandair leitar eftir hugmyndum ungs fólks um það með hvaða hætti heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna stuðla að mannréttindum og friði í heiminum. Tillögur á öllum tungumálum eru velkomnar. Hugmyndum má skila í mynd- og/eða ritmáli. Texti má vera vélritaður eða handskrifaður, lágmarks orðafjöldi er 200 orð. Verkið getur þannig t.d. verið skoðanagrein, pistill, örsaga, prósaljóð, myndaritgerð, myndskýrsla eða myndasaga. Skilafrestur er til 31. desember en nánar um þetta má lesa með því að smella á þennan hlekk: Félag Sameinuðu þjóðanna efnir til samkeppni fyrir ungt fólk | Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi
Eitt sem mig langar líka að benda nemendum á er að á næstu önn verður haldin framhaldsskólakeppni í rafíþróttum og langar okkur að fá sem flesta til að taka þátt. Um er að ræða keppni í þremur leikjum:
- Rocket league (3 keppendur) (Crossplay leyfilegt)
- CS:GO 2 (5 keppendur)
- Valorant (5 keppendur)
Þannig að ef þú spilar einhvern af þessum leikjum, vilt hitta aðra FMOS-inga til að spila með og jafnvel taka þátt í framhaldsskólakeppninni þá endilega hafðu samband við Þröst eðlis-/stærðfræði/tölvufræðikennara (throstur@fmos.is).
Síðasti kennsludagur vikunnar er á þriðjudaginn í næstu viku og einkunnabirting er föstudaginn 15. desember. Þá geta nemendur komið og skoðað verkefnin sín og rætt við kennara um hvernig gekk. Nánari tímasetning verður auglýst þegar nær dregur. Miðvikudaginn 20. desember verður svo útskrift hjá okkur sem endar með því að ég slít haustönninni. Á vorönn opnum við svo aftur þann 3. janúar en fyrsti kennsludagur vorannar er föstudaginn 5. janúar.
Hafið það gott á aðventunni.