Sæl öll og gleðilegt ár.
Það er gott að vera kominn aftur í skólann og fá smá reglu á hlutina aftur. Ég vona að þið hafið notið þess að vera í jólafríi, hvort sem það var í kuldanum hér heima eða á „Tene“. Ég kem alla vega endurnærður til baka.
Guðbjörg skólameistari setti vorönnina með formlegum hætti inni í matsal klukkan 8:30 í morgun og svo fór allt á fullt eins og vera ber. Það er eitthvað af nýjum andlitum eins og alltaf á nýrri önn en rétt fyrir jól kvöddum við fríðan hóp nemenda sem voru að útskrifast. Athöfnin var afskaplega vel heppnuð og við óskum þeim velfarnaðar í því sem þau taka sér fyrir hendur næst.
Þar sem einungis er einn kennsludagur búinn á önninni verður pistillinn meira í upplýsingaformi en fréttaformi að þessu sinni.
Eins og kynnt var á síðustu önn þá erum við með nokkrar nýjungar á dagatali annarinnar. Á vef skólans er hægt að skoða dagatal annarinnar þar sem hægt er að smella á ákveðna daga til að fá nánari útskýringar á þeim. Ég ætla samt að setja hér hlekki á þá daga sem nú er hægt að lesa nánar um á vef skólans. Þetta eru:
Fjarkennsluvika V23 er í viku 5 frá 30. janúar til 3. febrúar
Endurskilsdagar 22. febrúar og 28. mars
Samkennsludagur er 19. apríl
UNESCO-dagur 3. maí
Svo eru nokkrir dagar sem hafa verið áður en oft er spurt um:
Þemadagur er 2. mars.
Úrvinnsludagur er 3. mars.
Verkefnadagar eru nú einungis fjórir frá 12.-17. maí.
Ég vil minna á að það er mikilvægt að byrja námið af krafti strax frá byrjun því það er ekki gott að dragast aftur úr í skóla eins og FMOS þar sem unnið er jafnt og þétt alla önnina.
Hægt er að segja sig úr áfanga til 26. janúar, eftir það hafa nemendur skuldbundið sig til að ljúka þeim áföngum sem þeir eru skráðir í. Við minnum á reglur um mætingar og verkefnaskil og biðjum nemendur um að kynna sér þær vel.
Ég vil svo minna á námsráðgjafana okkar þau Svanhildi (svanhildur@fmos.is) og Alla (adalsteinn@fmos.is) varðandi skipulagningu á náminu. Hjúkrunarfræðingurinn okkar hún Lilja Dögg verður áfram hjá okkur og hægt er að koma við hjá henni milli klukkan 13 og 15 á miðvikudögum en svo verður hægt að bóka tíma milli klukkan 15 og 16 með því að senda póst á lilja@fmos.is eða með því að bóka viðtalstíma í gegnum Innu. Leiðbeiningar um hvernig hægt er að bóka tíma finna nemendur undir „Aðstoð“ á Innu. Þar má líka finna upplýsingar um fleiri gagnlega hluti. Endilega kíkið á það.
Mig langar líka að minna á að það eru fullt af gagnlegum upplýsingum á vef skólans, www.fmos.is. Þar eru upplýsingar um allt sem við kemur skipulagi skólastarfsins. Á vefnum er líka tengill á matseðil vikunnar og fleira og fleira.
Að lokum langar mig að minna á rafíþróttakeppni framhaldsskólanna en nemendur fengu póst í morgun þar sem þeir eru hvattir til að skrá sig. Um er að ræða keppni í þremur leikjum:
- Rocket league (3 keppendur) (Crossplay leyfilegt)
- CS:GO (5 keppendur)
- Valorant (5 keppendur)
Þetta eru því að lágmarki 13 nemendur sem við leitum að. Þannig að ef þú spilar einhvern af þessum leikjum, vilt hitta aðra FMOS-inga til að spila með og jafnvel taka þátt í framhaldsskólakeppninni að þá endilega hafðu samband við Þröst (throstur@fmos.is) eða Arnar (arnar@fmos.is).
Skráningarfrestur er til 12. janúar.
Góða helgi,
Valli aðstoðarskólameistari.