Íslensku menntaverðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þriðjudaginn 7. nóvember og sýnt var frá henni á RÚV í gær, miðvikudaginn 8. nóvember. Það er ánægjulegt að segja frá því að Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ fékk verðlaun í flokkinum framúrskarandi skólastarf og menntaumbætur fyrir þróun verkefnamiðaðra kennsluhátta og leiðsagnarnáms. Leiðsagnarnám er hugmyndafræði sem FMOS hefur fylgt frá stofnun skólans haustið 2009. Guðbjörg Aðalbergsdóttir, fyrsti skólameistari FMOS, hafði skýra faglega sýn og réð eingöngu kennara sem voru tilbúnir til að vinna samkvæmt hugmyndafræðinni. Kennarahópurinn er metnaðarfullur og hefur þróað þessar kennsluaðferðir þannig að nú hefur FMOS á að skipa hópi reynslumikilla sérfræðinga í leiðsagnarnámi. Nú er það í höndum setts skólameistara, Valgarðs Más Jakobssonar, að taka við keflinu og leiða hópinn áfram inn í framtíðina.
Við horfum bjartsýn fram á veginn og erum öll ákaflega glöð og stolt yfir þessum verðlaunum.