Alþjóðlegur dagur ofbeldisleysis er haldinn árlega 2. október og er tileinkaður friði og átakalausri samvinnu á heimsvísu. Þessi dagur var stofnaður af Sameinuðu þjóðunum árið 2007 til að heiðra minningu Mahatma Gandhi, sem fæddist þennan dag árið 1869. Gandhi er frægur fyrir friðsamlega andstöðu gegn óréttlæti og ofbeldi, sem hann kallaði ahimsa, eða ofbeldisleysi. FMOS er UNESCO skóli og í gær, þann 10. október, héldum við dag ofbeldisleysis í heiðri.
Við fengum til okkar góða gesti sem ræddu við okkur um ýmislegt sem tengist ofbeldisleysi og geðrækt. Áhersla var á umræðu um það hvernig við getum tileinkað okkur lífsviðhorf sem ýtir undir umræðu í samfélaginu og virðingu fyrir fjölbreytileikanum. Alexander samfélagslögga lýsti starfi sínu fyrir okkur, Hulda Tölgyes og Þorsteinn V. Einarsson ræddu við okkur um skaðlega karlmennsku, kynjað samfélag og mikilvægi geðræktar, og Eygló Harðardóttir frá Embætti lögreglunnar stýrði vinnustofu þar sem nemendur unnu saman að því að finna mögulegar lausnir á hinum ýmsu málum sem komið geta upp hjá ungu fólki.
Mæting var til fyrirmyndar. Jafnframt sannaðist það enn og aftur hve ótrúlega öflugir nemendur í FMOS eru en þeir tóku virkan þátt í allri umræðu, spurðu krefjandi spurninga og sýndu viðfangsefninu áhuga og virðingu.
Takk fyrir daginn!
Fréttin sem pdf