Að vera bæði fróður og góður

Menntakvika – ráðstefna í menntavísindum – fór fram 26.-27. september en þema ráðstefnunnar í ár var framtíð menntunar á tímum gervigreindar. Starfsfólk FMOS hefur ósjaldan tekið þátt í ráðstefnunni til að kynna það fjölbreytta starf sem fer fram innan skólans enda af nógu að taka. Í ár héldu fjórir kennarar, þær Björk Margrétardóttir, Elín Eiríksdóttir, Hrafnhildur Þórhallsdóttir og Vibeke Svala Kristinsdóttir, erindi um þá vegferð sem þær lögðu í á síðasta skólaári til að efla mannkostamenntun (character education) í skólanum. Mannkostamenntun miðar að því að þroska með nemendum dygðir, þ.e. mannkosti sem leiða til farsældar og stuðla að því að við lifum lífi sem er okkur sjálfum og öðrum til góðs – markmiðið er því að nemendur verði bæði fróðir og góðir. Eins og þær stöllur lögðu áherslu á í erindinu á Menntakviku er ekki síst mikilvægt að hlúa að mennskunni, siðferðisþroska og mannlegu samtali í dag þar sem hinn stafræni heimur flæðir í síauknu mæli inn í líf okkar. Um þessar mundir er sjónum nemenda og starfsfólks FMos beint sérstaklega að fjórum lykildygðum; kurteisi, hugrekki, forvitni og seiglu.

Áhugasamir geta lesið sér betur til um verkefnið á heimasíðu skólans: Mannkostamennt-veggspjöld | Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ (fmos.is)