Nám og skipulag

Stefnur skólans

  • Stefnur skólans má finna á vefsíðunni undir flipanum "Skólinn" og kaflinn heitir "Stefnur og mat".

Dagatal skólaársins

  • Upphaf annar Upplýsingamiðstöð FMOS er opnuð fyrsta virka dag nýs árs og að loknu sumarleyfi í upphafi ágústmánaðar. Skólahald hefst með tveimur vinnudögum kennara þar sem haldnir eru fundir og undirbúningur fyrir önnina á sér stað. Upplýsingafundur fyrir nýja nemendur er fyrir skólasetningu og er í höndum 2-3 kennara. Nemendur fá stundatöflu, kynningu á skólastarfinu og kynnast skólahúsnæðinu.
  • Skólasetning er yfirleitt að morgni þriðja vinnudags annarinnar og í kjölfarið hefst kennsla samkvæmt stundatöflu. Áhersla er lögð á að nýta kennslustundir vel frá fyrsta degi.
  • Nýnemadagur er haldinn á fyrstu vikum haustannar. Kennsla fellur niður þann dag þar sem starfsfólk og eldri nemendur bregða á leik með nýnemum og bjóða þá velkomna.
  • Foreldrafundur er haldinn seinni part dags, eftir að kennslu lýkur á fyrstu vikum haustannar. Allir kennarar eru til viðtals en skólameistari ávarpar fundinn og foreldrar hafa tækifæri til að kynna sér starfsemi skólans.
  • Húsfundur er haldinn a.m.k. einu sinni á skólaári, þá koma nemendur og starfsfólks skólans saman á sal um miðjan dag í um klukkustund og ræða sameiginlega mál sem tengjast skólastarfinu.
  • Forvarnardagur er haldinn árlega. Þá fellur kennsla niður ýmist hálfan eða heilan dag og nemendur taka þátt í viðburðum sem hafa forvarnargildi. Skipulagning forvarnardags er í höndum forvarnarteymis skólans.
  • Haustfrí er yfirleitt tvo daga í október.
  • Þemadagar nemenda eru einn til tveir og eru þeir haldnir á vorönn, á bilinu mars til maí. Nemendafélagið skipuleggur dagskrá þemadaga í samstarfi við kennara. Hefðbundin kennsla fellur niður en kennarar sinna fjölbreyttum verkefnum í tengslum við þemadaga.
  • Árshátíð nemenda er haldin í samhengi við þemadag/daga. Starfsfólk er hvatt til að mæta á árshátíðina en nemendur bíða ávallt eftirvæntingarfullir eftir skemmtiatriði starfsfólks.
  • Dimision nemenda er haldin rétt fyrir verkefnadaga. Þá er útskriftarnemum boðið í morgunmat með starfsfólki skólans.
  • Jólamatur Í byrjun desember er haldinn hátíðarhádegisverður í mötuneyti skólans þar sem nemendur og starfsfólk borða saman fínni mat og jólaandinn svífur yfir vötnum.
  • Útskriftarathafnir eru haldnar á sal skólans. Skólameistari flytur ávarp og útskrifar nemendur. Aðstoðarskólameistari er kynnir. Nýstúdent flytur ræðu fyrir hönd útskriftarhópsins. Kennari flytur ávarp fyrir hönd starfsfólks. Tónlistaratriði eru ríkur þáttur í athöfninni sem tekur um klukkustund. Starfsfólki skólans og boðsgestum er boðið í kaffiveitingar í boði skólans að lokinni athöfn.
  • Að útskrift lokinni á haustönn fara kennarar í jólafrí. Að vori eru tveir vinnudagar kennara sem nýtast á margskonar hátt, til dæmis í fundarhöld eða kynningar.

Kennsla fellur niður

  • Gera verður ráð fyrir kennslulausum dögum á árinu vegna nýnemadags, forvarnardags, tveggja starfsdaga vegna miðannarmats og eins til tveggja þemadaga.

Inna

  • Inna er upplýsinga- og kennslukerfi fyrir framhaldsskóla og inniheldur upplýsingar um stóran hluta þess sem við kemur skólagöngu nemenda, t.d. persónulegar upplýsingar, námsferil, skólasókn og stundatöflu. Þar nálgast nemendur einnig kennsluáætlanir og námsefni, fylgjast með skilaboðum frá kennurum, taka kannanir og próf, sækja og skila verkefnum svo eitthvað sé nefnt.
  • Kennarar nota Íslykilinn eða rafræn skilríki til að fá aðgang að Innu. Stundatafla kennara birtist í Innu.
  • Kennarar skrá viðveru nemenda í Innu (í stundatöflu, finna tíma hjá viðkomandi hópi, Fd eða Fv) , M = mæting eða F = fjarverandi. Við þessa aðgerð berst nemendum, upplýsingamiðstöð og stjórnendum upplýsingarnar.
  • Ef nemandi er fjarverandi, sama hver ástæðan er, skráir kennarinn F í Innu. Skrifstofan leiðréttir það síðan ef um leyfi eða veikindi er að ræða.
  • Kennarar skrá miðannarmat: starfsmaður – skrá miðannarmat.
  • Kennarar skrá einkunnir í lok annar: starfsmaður – skrá einkunnir.
  • Umsjónarkennarar fylgjast með mætingu nemenda sinna og aðstoða þá við námsval í gegnum INNU.
  • Upplýsingar um Innu í FMOS gefur: skólameistari.
  • Áfangalýsingar er að finna á vef skólans. Ef um nýja áfanga er að ræða eða viðamiklar breytingar á áfanga er sú vinna unnin í samráði við stjórnendur.

Nemendaferðir

  • FMOS lítur það jákvæðum augum að kennarar skipuleggi ferðir með nemendum sínum í ákveðnum áföngum.
  • Skólinn mun ekki taka þátt í kostnaði vegna ferðanna, en að sjálfsögðu heldur kennarinn launum sínum.
  • Best er að undirbúa slíkar ferðir með góðum fyrirvara og vera jafnvel kominn með staðfestingu á styrkjum sem sótt er um, alla vega til að fjámagna ferðir kennara áfangans. (RANNÍS)
  • Algengast er að nemendur þurfi að safna fyrir sínum ferðakostnaði.

Viðtalstímar

  • Í upphafi annar velja kennarar sér viðtalstíma og skrá þá í Innu. Hægt er að magnskrá viðtalstíma yfir ákveðið tímabil. Ef einhver lendir í vandræðum með þetta þá er hægt að leita til áfangastjóra, kíkið við á skrifstofunni eða sendið tölvupóst á ingathora@fmos.is

Valtímabil

  • Valtímabil stendur yfir í eina til tvær vikur á miðri önn. Fyrir þann tíma hafa kennarar lagt fram hugmyndir að áföngum sem þeir vilja bjóða upp á næstu önn. Áfangastjóri kallar eftir hugmyndum frá kennurum. Listi er útbúinn yfir áfanga í boði og nemendur velja um 30 einingar fyrir næstu önn og a.m.k. 15 einingar til vara. Kennarar kynna áfanga á ýmsan hátt t.d. með veggspjöldum eða með myndböndum. Umsjónarkennarar aðstoða nemendur sína við að velja og staðfesta valið þeirra.

Frágangsdagar í lok annar

  • Að verkefnadögum loknum ganga kennara frá námsmati nemenda og færa inn einkunnir í INNU. Kennarar sjá um frágang og varðveislu á námsgögnum úr klösum. Nemendur sjá lokaeinkunnir á Innu og samdægurs eða daginn eftir er haldin verkefnasýning þar sem nemendur geta komið og séð verkefni sín og útreikninga á lokaeinkunnum. Kennarar sem sjá um endurtektarverkefni hjá útskriftarnemendum vinna nokkrum dögum lengur en aðrir kennarar við umsjón þeirra verkefna.

Umsjónarkennarar
Hlutverk umsjónarkennara 

  • Kennarar sem hafa áhuga á að vera umsjónarkennarar sækja um það til stjórnenda. Nemendur yngri en 18 ára hafa allir umsjónarkennara. Hlutverk umsjónarkennarans er m.a. að fylgjast með skólagöngu nemenda og veita aðstoð og leiðsögn um hvaðeina sem viðkemur námi nemenda og gengi í skólanum. Umsjónarkennarinn fylgist með ástundun nemenda, bæði mætingu og verkefnaskilum, hvetur nemendur til að stunda námið af kostgæfni og leitar leiða til aðstoða þá ef þeir þurfa. Umsjónarkennarinn er í samstarfi við námsráðgjafa og stjórnendur um lausnir fyrir nemendur sem þurfa umfangsmeiri aðstoð.
  • Greitt er fyrir umsjónarvinnuna með tveimur launaþrepum.

Verkefni umsjónarkennara:

  • Hitta umsjónarnemendur á fundi í upphafi annar og á umsjónarfundum í verkefnatíma aðra hvora viku.
  • Fylgjast með mætingum og verkefnavinnu.
  • Vera í sambandi við nemendur sem fara undir 80% í mætingu og/eða skila ekki verkefnum og foreldra þeirra.
  • Vera í samstarfi við námsráðgjafa og/eða stjórnendur um erfið mál.
  • Aðstoða umsjónarnemendur við val, sjá til þess að allir velji og staðfesta valið.
  • Sitja 2-3 umsjónarkennarafundi á önn

Faglegt samstarf kennara í FMOS

  • Kennarafundir eru haldnir einu sinni í mánuði á fundartíma á fimmtudögum.
  • Samstarf kennara á sviðum: Fundir einu sinni í mánuði.
  • Þróunarverkefni: Fundir tvisvar í mánuði.
  • Kennarar fá senda áætlun yfir fundi annarinnar með upplýsingum um lengd funda í hverri viku til að allir viti fyrirfram hvenær lengri fundirnir eru.

Mat á gæðum kennslunnar

  • Lagt er mat á gæði kennslunnar í skólanum í lok hverrar annar og eru um það bil 30% kennara metnir á hverri önn. Notaðar eru tvær aðferðir við matið, ýmist rafræn könnun í Innu eða matsfundir.

Kennslumat í Innu

  • Um það bil 30% kennara eru valdir til að taka þátt í kennslumati á hverri önn og nemendur þeirra fá rafræna könnun í Innu til að svara.

Matsfundir

  • Matsfundir eru haldnir í hópum um það bil 30% kennara í lok hverrar annar. Þegar skipulag fundanna liggur fyrir fá kennarar upplýsingar um hvenær þeirra fundir verða.
  • Matsfundir eru haldnir með nemendum til þess að leggja mat á gæði kennslunnar í skólanum.
  • Skólameistari og aðstoðarskólameistari (og námsráðgjafi í einstaka tilfellum) sjá um framkvæmd matsfundanna og dæmigerður matsfundur fer svona fram:
  • Stjórnendur koma inn í tímann þegar um 15-20 mínútur eru eftir af tímanum og biðja nemendur að hjálpa sér með því að taka þátt í matsfundi. Nemendur fá upplýsingar um að matsfundirnir séu hluti af sjálfsmatskerfi skólans og að tilgangurinn með þeim sé að leggja mat á gæði kennslunnar. Þeir fá upplýsingar um það að allt sem nemendur segja er skrifað niður og rætt seinna við kennarann þeirra. Síðan er fyrirkomulag fundarins útskýrt fyrir nemendum og þeir beðnir um að setjast í hring þannig að sérhver nemandi fái sæti í hringnum.
  • Fyrirkomulagið er þannig að fyrst er farinn einn hringur þar sem nemendur eru beðnir um að hugsa um hvað þeim finnst gott og jákvætt við kennsluna í þessum áfanga. Hver og einn nemandi fær tækifæri til að leggja sitt fram, en þeir mega segja pass eða taka undir með einhverjum sem er kominn á undan. Stjórnendur spyrja frekari spurninga ef þess er þörf og fá nemendur til að skýra betur eða koma með dæmi – eða hvað annað sem getur gefið sem bestu mynd af því sem nemendur vilja koma á framfæri. Næst er farinn annar hringur þar sem nemendur eru beðnir um að hugsa um hvort þeir vilja breyta einhverju, bæta við eða gera öðruvísi í kennslunni í þessum áfanga og sami háttur hafður á að leita skýringa eða dæma til að málflutningur nemenda sé sem skýrastur.
  • Að lokum fá nemendur boð um að fara annan hring það sem þeir mega ræða um hvað sem er sem viðkemur skólastarfinu.
  • Eftir að kennslu lýkur á önninni boða stjórnendur kennara þeirra hópa sem tóku þátt í kennslumati eða matsfundum á fund og senda þeim niðurstöður. Þeir ræða saman um það sem kom fram í niðurstöðum kennslumatsins eða á fundunum, vekja athygli á því sem vel er gert og aðstoða kennara við að skipuleggja úrbætur ef þörf er á.

 

Síðast breytt: 24. apríl 2023