Stefnuyfirlýsing í stærðfræði

Lögð er áhersla á að nemendur vinni sjálfir með hugtök stærðfræðinnar og kynnist þeim þannig að þeir geti rætt efnið og skýrt. Einnig skulu þeir öðlast færni í því að draga sínar eigin ályktanir og rökstyðja þær. Þannig skulu nemendur tileinka sér stærðfræðina og sjá nytsemi hennar í öðrum fræðigreinum og daglegu lífi. Nemendur skulu öðlast færni í að nýta sér nútímatækni við úrlausn verkefna og geta gert líkön af raunverulegum aðstæðum.

Helstu námsþættir

Á 1. þrepi er lögð áhersla á góðan skilning á tölum og reiknireglum stærðfræðinnar og myndrænar aðferðir notaðar til að nálgast viðfangsefnið. Þar af leiðir er mikil samþætting algebru og rúmfræði sem skilar sér í góðum grunni fyrir áframhaldandi stærðfræðinám.

Stærðfræðikennsla á félags- og hugvísindabraut
Nemendur eiga að geta notað stærðfræði til að mæla, greina og lýsa raunverulegum viðfangsefnum. Nemendur eiga að hafa öðlast grunnþekkingu í fjármálalæsi.

Nemendur skulu hafa aflað sér færni í því að setja fram og túlka niðurstöður í greinum félags- og hugvísinda með stærðfræðilegri marktækni.

Stærðfræðikennsla á náttúruvísindabraut
Nemendur eiga að geta notað stærðfræði til að mæla, greina og lýsa raunverulegum viðfangsefnum. Nemendur eiga að hafa öðlast grunnþekkingu í fjármálalæsi.

Þá skulu þeir öðlast færni í að lýsa ferlum og sambandi mælistærða með aðferðum stærðfræðigreiningar, lýsa hreyfingu og stöðu í tvívíðu rúmi. Nemendur skulu einnig geta nýtt sér rökfræði og rökhugsun til að lesa og skrifa stærðfræðilegan texta og einföld tölvuforrit.

Kennsluaðferðir og námsmat
Í öllum áföngum er lögð áhersla á verkefnamiðað nám þar sem nemendur vinna saman að lausn verkefna. Í verkefnunum kryfja nemendur efnið og tjá sig um niðurstöður sínar við kennara eða aðra nemendur svo mikil áhersla er lögð á samræður og túlkun. Leitast er við að nemendur sjái merkingu í viðfangsefnum greinarinnar með því að hafa verkefni áhugaverð. Tölvur eru mikið notaðar, bæði til þess að auka myndræna framsetningu og til þess að smíða líkön. Þetta er liður í því að nemendur geti nálgast viðfangsefnin frá ólíkum áttum og krufið þau dýpra.

Meginhluti námsmats byggir á verkefnum sem nemendur skila jafnt og þétt yfir önnina. Einnig sýna nemendur fram á kunnáttu sýna með því að leysa stutt kaflapróf. Innlagnir kennara eru ávallt í samræðuformi með þátttöku nemenda og því alltaf krafist fullrar virkni af hálfu nemenda í kennslustundum.

Lögð er áhersla á mikilvægi þess að nemendur sýni hver öðum virðingu þannig að allar raddir fái að njóta sín.

 

Síðast breytt: 27. september 2019