Stefnuyfirlýsing í líffræði

Leitast er við að kynna líffræðina bæði sem fræðigrein og sem leið til að njóta og skilja lífið og náttúruna allt í kringum okkur.

Í líffræði í FMOS er lögð áhersla á að nemendur tileinki sér skipulögð vinnubrögð og vinni sjálfstætt. Mikið er lagt uppúr fjölbreyttu kennsluefni og verkefnavali.

Helstu námsþættir
Í grunnáfanga í líffræði er farið í gegnum helstu lífeiningar heimsins, flokkun lífvera og almenn grunnatriði fyrir sérhæfðari líffræði áfanga á 3.þrepi.

Boðið er uppá fjölbreytta áfanga innan líffræðinnar þar sem nemendur sérhæfa sig í hinum ýmsu þáttum innan líffræðinnar, s.s. lífeðlisfræði (líkama mannsins), fjölbreytileika og sérkenni lífvera, erfða- og þróunarfræði, líffræði og önnur vísindi í kvikmyndum o.s.frv. Í öllum áföngum hafa nemendur að einhverju leyti val um hvaða efnisatriði þeir kafa dýpst í.

Kennsluaðferðir og námsmat
Í líffræði er áhersla lögð á fjölbreytt verkefni sem tengjast áhugasviðum nemenda eins og því verður við komið. Töluvert er notað af myndefni sem krufið er í umræðum til að dýpka þekkingu nemenda á mismunandi sviðum. Nemendur eru stundum beðnir um að sérhæfa sig í ákveðnu efni og kynna samnemendum sínum. Verkefni eru að miklu leyti unnin í tímum en heimildaleit og frágangur að einhverju leyti utan kennslustundar til að koma til móts við mismunandi vinnuhraða nemenda.

Námsmat byggir að verulegu leyti á verkefnavinnu en einnig er virkni og þátttaka í umræðum notuð við námsmat. Stutt könnunarpróf sem ætluð eru til að taka saman námsþætti eru svo einnig hluti af námsmati.

Annað
Töluvert af námsefni áfanga kemur frá kennara en stór hluti námsefnisins í líffræði er á ensku. Nemendur kynnast því fræðiheitum líffræðinnar á ensku sem auðveldar skrefið í átt að námi á háskólastigi.

 

Síðast breytt: 27. september 2019