Stefnuyfirlýsing í íslensku

Í íslenskukennslu er megináherslan á lestur og ritun. Í læsi er fyrst og fremst unnið með lesskilning fjölbreyttra bókmenntatexta. Unnið er með textana í umræðum og skriflegum verkefnum. Í ritun vinna nemendur fjölbreytt verkefni þar sem þeir læra að byggja upp faglega heimildaritgerð, skrifa ígrundanir auk þess sem skapandi verkefnum gert hátt undir höfði, hvort sem um ritun eða annars konar nálganir er að ræða.

Í vinnu með íslenskar bókmenntir leggjum við áherslu á að sinna grunnþáttum menntunar. Ásamt því að vinna með grunnþættina læsi og sköpun fléttum við aðra grunnþætti í verkefnavinnuna eftir því sem efni standa til, einkum lýðræði og mannréttindi og jafnrétti.

Helstu námsþættir

Lesnir eru fjölbreyttir textar úr íslenskri bókmenntasögu: fornsögur, goðsögur, valin eddukvæði, smásögur, skáldsögur og ljóð. Markmiðið er að nemandinn hafi að námi loknu aflað sér hæfni til þess að geta skilið, túlkað og greint helstu verk íslenskra bókmennta, allt frá fornsögunum til nútímabókmennta.

Kennsluaðferðir

Í íslenskukennslu í FMOS er stuðst við verkefnamiðað nám og leiðsagnarmat eins og í námi við FMOS almennt. Námið er verkefnamiðað sem þýðir að kennslustofurnar eru í raun vinnustofur nemenda og því er kennarinn í hlutverki leiðbeinanda. Í íslenskunni eru engin stór lokapróf, ekki frekar en í öðrum greinum, heldur vinna nemendur verkefni sem gilda til námsmats jafnt og þétt alla önnina. Stuðst er við fjölbreyttar verkefnamiðaðar kennsluaðferðir með blöndu af einstaklings- og hópverkefnum.

Námsmat

Námsmatið gengur út á leiðbeinandi umsagnir, þ.e. efnislega endurgjöf þar sem fram kemur hvað nemandinn gerir vel í verkefninu og það sem þarf að færa til betri vegar. Í stærri verkefnum er nemendum gefinn kostur á endurskilum. Ef vel er unnið úr umsögn og athugasemdum geta nemendur bætt námsmat verkefna sinna.

 

Síðast breytt: 27. september 2019