Markmið allra heimspekiáfangana í FMOS er að þjálfa og efla gagnrýna hugsun, að nemendur sjái tilgang með náminu og geti notað heimspeki á öðrum sviðum í lífinu. Gera nemendur að hæfari námsmönnum og upplýstari einstaklingum. Annað markmið námsins er að tengja kennsluefnið við raunveruleikann og að nemendur geti tengt efnið við sig persónulega.
Námsefnið er kennt að mestu leyti í samræðuformi og nemendur eru hvattir til að gagnrýna námsefnið og taka virkan þátt í kennslunni. Haldnir eru umræðutímar þar sem litlir hópar ræða sín á milli, nemendur gera hópverkefni og einstaklingsverkefni, vinna að ritgerðum, stuttum umfjöllunum, kynningum, veggspjöldum, munnlegum prófum og kvikmyndaverkefnum svo eitthvað sé nefnt. Áhersla er lögð á að nemendur geti unnið með heimildir, myndað sér rökstuddar skoðanir og rætt málefni og heimspekileg álitaefni á upplýstan og röklegan hátt.
Helstu námsþættir
Í 2. þreps áfanga er sjónum beint að gagnrýnni hugsun og helstu kenningum tengdum henni, nemendur gera stutt verkefni yfir önnina sem miðast að því að þjálfa rökstuðning og málefnalega umræðu.
Í 3. þreps áföngum er lögð áhersla á vönduð og öguð vinnubrögð við framkvæmd verkefna. Einnig er lögð áhersla á röklegar og upplýstar umræður og að nemendur þjálfist í sjálfstæðum rannsóknum, m.a. í fagurfræði, siðfræði og stjórnspeki.
Kennsluaðferðir og námsmat
Námið fer að mestu leyti fram í samræðuformi og nemendur eru hvattir til að gagnrýna kennsluna, kennsluaðferðirnar og námsefnið og taka virkan þátt í kennslunni.
Í öllum verkefnum, hvort sem það eru skrifleg, munnleg, hópverkefni eða einstaklingsverkefni er lögð áhersla á vönduð vinnubrögð, rétta meðferð heimilda, skilning, sanngjarna nálgun og röklega umræðu. Nemendur eru einnig metnir út frá þátttöku og virkni í kennslustundum.
Síðast breytt: 27. september 2019