Stefnuyfirlýsing í dönsku

Dönskukennslan í FMOS einkennist af því að nemendur fái þjálfun í því að nota tungumálið til samskipta á sem fjölbreyttastan hátt þar sem læsi í víðum skilningi skipar stóran sess.

Túlkun og greining texta er kennd í byrjunaráfanga og dýpkar í framhaldsáfanga. Í öllum áföngum eru nemendur kynntir fyrir sem flestum þáttum er varða danska siði og menningu, sem og skyldleika Norðurlandamálanna.

Markvisst er unnið að því að nemendur geti notað tungumálið til þess að afla sér upplýsinga og öðlist hæfni til þess að tjá skoðanir sínar skýrt og örugglega. Efnið er fjölbreytt, krefst gagnrýnnar hugsunar og miðar að því að gera nemendur meðvitaða um lýðræðislega ábyrgð sína.

Helstu námsþættir
Í 1. þreps áfanganum er unnið í því að styrkja grunnkunnáttu í danskri málfræði og tileinkun orðaforða. Skoðuð er sérstaklega gagnsemi dönskukunnáttu, almennt og útfrá persónulegum þörfum hvers og eins. Markvisst er unnið að því að auka lesskilning með fjölbreyttu efni og aðferðum.

Í 2. þreps áföngum er lögð áhersla á málnotkun og orðaforðavinnu. Unnið er með túlkun og tjáningu þar sem nemendur fá þjálfun í bókmenntagreiningu og beitingu mismunandi stílbragða. Minni áhersla er á form tungumálsins og meira unnið með flæðið þar sem nemendur fá frekari þjálfun í munnlegri tjáningu og skila frá sér lengri textum eftir því sem líður á námið.

Í 3. þreps áföngum er rík áhersla lögð á sjálfstæði nemandans við skipulag og úrlausn verkefna. Unnið er með rauntexta af ýmsu tagi og að þjálfa nemandann í upplýsingaleit og að hann geti skýrt frá skoðunum sínum í ritun og tali.

Kennsluaðferðir og námsmat
Það sem einkennir kennsluaðferðirnar er sjálfstæði nemandans og ábyrgð hans á eigin námi. Nemandinn lærir mismunandi aðferðir við að tileinka sér tungumál og þær leiðir sem hentar honum best. Lögð er áhersla á að gera nemendur meðvitaða um eigin námsframvindu með því að skoða stöðu hans í upphafi og í gegnum námsferlið. Námsmat fléttast að hluta til inn í kennslu í formi leiðsagnarmats, sjálfsmats og jafningjamats.

Samvinnunám er einkennandi í efra þreps áföngum þar sem nemendur fá þjálfun í að deila þekkingu sinni og vinna saman að námsmarkmiðum. Síðast en ekki síst eiga kennsluaðferðir að efla sjálfstraust nemandans svo hann geti nýtt tungumálið til þess að afla sér upplýsinga og tjá sig í ræðu og riti.

 

Síðast breytt: 27. september 2019