UMHV3RÁ03 - Umhverfisráð

Í áfanganum skoða nemendur stöðu umhverfismála sem tengjast skólanum eða nærumhverfi hans. Nemendur eru hvattir til að koma með hugmyndir að úrbótum með sjálfbærni og sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Lagt er upp með að nemendur sýni frumkvæði og skapandi hugsun, beiti sjálfstæðum og lýðræðislegum vinnubrögðum, séu lausnamiðaðir og markvissir. Efnisáherslur í áfanganum eru breytilegar frá einni önn til annarrar, í takt við hugmyndir nemendahópsins, en þó má nefna t.d. samgöngur til og frá skóla, orkunotkun innan skólans, neysla nemenda, auðlindanýtingu, matarsóun, flokkun, fræðslu ungmenna á umhverfismálum og fleira. 

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • hugtakinu „sjálfbærni“ og sjálfbær þróun
  • stöðu umhverfismála innan skólans og í nærumhverfi hans 
  • ýmsum hugtökum sem tengjast þema áfangans hverju sinni
  • stöðu afmarkaðra umhverfismála á lands- og heimsvísu

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • leita sér upplýsinga um umhverfismál, bæði á íslensku og ensku
  • beita gagnrýnni hugsun við að afla sér upplýsinga um umhverfismál
  • nýta upplýsingar tengdar umhverfismálum til að draga markvissar ályktanir
  • meta stöðu umhverfismála í skólanum og í nærumhverfi hans
  • setja fram hugmyndir að viðfangsefni tengdu umhverfismálum, innan skóla og utan, sem vert væri að vinna að úrbótum á

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • taka þátt í umræðum um umhverfismál á gagnrýninn hátt 
  • vinna í hóp við að útfæra eigin hugmyndir og annarra
  • skoða umhverfismál í samhengi við sjálfbæra þróun
  • fræða nemendur og starfsfólk skólans um afmarkað efni tengt umhverfismálum
  • stuðla að betri og vistvænni framhaldsskóla þar sem nemendur eru meðvitaðir um umhverfislega ábyrgð sína