UMHV3ÍS05 - Auðlindir Íslands
Í áfanganum er lögð áhersla á umhverfismál tengd Íslandi en einnig á hnattvísu. Fjallað er um sjálfbæra auðlindanýtingu og sjálbæra þróun. Lögð er áhersla á að nemendur skoði sjálfbæra þróun í víðu samhengi og velti fyrir sér mikilvægi umhverfismála, félagslegra þátta og efnahagslegra áhrifa. Sérstaða Íslands í orkumálum er skoðuð. Nemendur kynna sér innlenda orkugjafa og velta fyrir sér hvað felst í hagnýtri orkunýtingu. Teknar eru fyrir ólíkar gerðir vistvæns eldsneytis og skoðaðir kostir og gallar þeirra. Lögð er áhersla á að nemendur kynni sér og vinni með umhverfismál sem eru efst á baugi hverju sinni. Nemendur eru hvattir til að skoða umhverfismál á gagnrýninn hátt, velta fyrir sér ólíkum sjónarmiðum og mynda sér eigin skoðanir.
Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- sérstöðu Íslands í umhverfismálum
- helstu auðlindum Íslands
- grænni orku
- ólíkum kostum í eldsneytismálum
- hvernig umhverfismál, félagslegir þættir og efnahagsleg áhrif, tengjast hugmyndinni um sjálfbæra þróun
- vatni sem auðlind
- nýtingu jarðvarma og vatnsaflsvirkjana
- hnattrænni hlýnun og vendipunktum í þeirri þróun
Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- beita gagnrýnni hugsun við að afla sér upplýsinga um umhverfismál
- útfæra hugmyndir um sjálfbæra þróun þar sem tekið er tillit til umhverfismála, félagslegra þátta og efnahagslegra áhrifa
- nýta kunnáttu sína til að bæta og breyta eigin lífsstíl og neyslumynstri
- miðla áreiðanlegum upplýsingum um umhverfismál og nýtingu á landsins gæðum
- skilja mikilvægi sjáfbærrar nýtingar auðlinda
- meta ábyrgð, orsakir og afleiðingar ágangs mannsins á umhverfið og auðlindir náttúrunnar
Hæfniviðmið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- túlka á gagnrýninn hátt upplýsingar sem tengjast umhverfismálum
- taka ábyrga og rökræna afstöðu til nýtingar náttúruauðlinda
- skilja hugtök tengd sjálfbærri auðlindanýtingu og geta tekið þátt í umræðu um þau málefni
- taka ábyrga og upplýsta afstöðu til umhverfismála
- vera virkur þátttakandi í umræðu um umhverfismál og auðlindir Íslands
- sýna ábyrgð í eigin umgengni við umhverfið, náttúruna og nýtingu auðlinda
- stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlinda