UMHV2UN05 - Umhverfisfræði fyrir alla
Í áfanganum er lögð áhersla á að nemendur verði meðvitaðri um þátt einstaklingsins í umhverfisvernd. Leitast er við að auka ábyrgðartilfinningu nemenda gagnvart bæði sínu nánasta umhverfi og umhverfisins á hnattvísu. Unnið er með hugtök úr umhverfisfræði og aukin þekking og umræða nýtt til að tengja við daglegt líf nemenda, hegðun, samfélag og hnattræn áhrif. Í áfanganum er leitast við að auka hæfni nemenda við að beita gagnrýnni hugsun við lestur og túlkun upplýsinga sem tengjast umhverfismálum og að hver og einn móti sér sína afstöðu til umhverfistengdra mála. Gert er ráð fyrir að nemendur vinni bæði sjálfstætt og í hópum. Áhersla er lögð á að nemendur átti sig á að öll berum við ábyrgð á umhverfinu og hnattrænni velferð.
Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- helstu hugtökum umhverfisfræðinnar
- heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar
- hlýnun jarðar; orsökum, afleiðingum og ábyrgð einstaklingsins
- helstu umhverfisvandamálum samtímans
- fjölbreyttum leiðum einstaklingsins til vistvænni lifnaðarhátta
- mikilvægi hringrásar og hringrásarhagkerfisins
- grænum lífsstíl og hvað felst í honum
- sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda
Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- beita gagnrýnni hugsun við að afla sér áreiðanlegra upplýsinga um umhverfismál
- meta áhrif hversdagslegra athafna á umhverfið
- nýta kunnáttu sína til að bæta og breyta eigin lífsstíl
- taka þátt í umræðum um umhverfistengd mál
- skilja mikilvægi samvinnu í umhverfismálum
- meta ábyrgð, orsakir og afleiðingar af gerðum mannsins og tengja við siðferðisvitund
Hæfniviðmið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- taka ábyrga og rökræna afstöðu til umhverfismála
- skilja hugtök tengd umhverfismálum og geta tekið þátt í umræðum um þau málefni
- sýna ábyrgð í eigin umgengni við náttúruna og samfélagið
- gera lífsstíl sinn umhverfisvænni með því að aðlaga hann að grænum lífssstíl
- átta sig á eigin getu til að hafa áhrif á umhverfi sitt og samfélag
- minnka ágang á náttúruauðlindir með vistvænni lifnaðarháttum
- miðla áreiðanlegum upplýsingum um umhverfismál