STÆR2LÆ05 - Líkindafræði og fjármálalæsi

Í þessum framhaldsáfanga á Félags- og hugvísindabraut verða grunnatriði í líkindafræði og talningafræði kynnt. Nemendur læra að nota veldisföll og logra með sérstakri áherslu á fjármálastærðfræði. Teknar verða fyrir grunnhugmyndir fjármálalæsis og hagfræði. Kennslufyrirkomulag - kennsluaðferðir: Hópvinnutímar með umræðum og stuttum fyrirlestrum, þar sem áhersla er lögð á að kryfja efnið til að dýpka skilning. Nemendur vinna verkefni frá kennara saman í hóp eða einir eins og hverjum hentar en skila sjálfstæðum verkefnum á tveggja til þriggja vikna fresti. Kennsluaðferðin er verkefnamiðað nám þar sem kennsla og námsmat eru samofin.

Þekkingarviðmið

  • einföldum mengjareikningi
  • grunnhugtökum talningafræði
  • líkindareikningi í endanlegu líkindarúmi með jafndreifðum líkum
  • gagnasöfnun og flokkun gagna
  • notkun töflureiknis og GeoGebru við stærðfræðileg viðfangsefni
  • grunnhugtökum fjármálalæsis
  • launaútreikningum, vöxtum, verðbólgu og vísitölum.

Leikniviðmið

  • meta heppilega flokkun og framsetningu á tölulegum upplýsingum
  • meta eða finna líkur á ýmsu sem fyrir kemur í daglegu lífi
  • nota forrit til að leysa ýmis reikningsleg viðfangsefni
  • reikna launaseðla og vaxtakjör
  • greina hvað liggur að baki tölum úr fjármálaheiminum.

Hæfnisviðmið

  • skrá lausnir sínar skipulega, skiptast á skoðunum við aðra um þær og útskýra hugmyndir sínar og verk skilmerkilega á viðeigandi hátt
  • átta sig á tengslum ólíkra aðferða við framsetningu stærðfræðilegra hugmynda og viðfangsefna
  • skilja merkingu og tengsl hugtaka í námsefninu og vinna með þau
  • geta fylgt og skilið röksemdir og röksamhengi í mæltu máli og texta
  • beita skipulegum aðferðum við að leysa úr viðfangsefnum og þrautum, s. s. út frá þekkingu á lausnum svipaðra þrauta, unnið til baka frá þekktum stærðum eða með því að setja upp jöfnur
  • takast á við stærðfræðileg verkefni með opnum og jákvæðum huga
  • taka fjárhagslega ígrundaðar ákvarðanir í lífinu.