Í þessum áfanga er lögð áhersla á að nemendur efli næmi sitt fyrir myndbyggingu á tvívíðum fleti. Þeir kynnast klassískum lögmálum myndbyggingar og kanna myndflötinn; hvernig eðli hans breytist eftir því hvernig form skipta honum upp og hafa áhrif á jafnvægi hans. Kannaðar verða stærðir og hlutföll forma í rými. Nemendur vinna síðan verk frá tvívíðri formfræði yfir í þrívídd. Kannaðar eru mismunandi aðferðir og eftirfarandi efnisatriði/kjarnahugtök kynnt: Punktur, lína, flötur, rými, hæð, lengd, breidd, dýpt, tími, tvívíð form, þrívíð form, náttúruform, stærðfræðileg form, samræmi, jafnvægi, misvægi, speglun, hrynjandi, taktur, endurtekning, jákvæð form, neikvæð form, áferð, uppsetning, litir.
Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- möguleikum grunnformanna og línunnar
- forsendum myndbyggingar og fjarvíddar
- tvívíðum formum, myndbyggingu og möguleikum þeirra
- þrívíðum formum, uppbyggingu og notkun til að skapa hluti eða rýmisverk
Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- beita línu og formum til að ná fram mismunandi áhrifum
- búa til mynstur
- byggja upp myndflöt
- vinna myndverk í tvívíðu formi
- vinna myndverk í þrívíðu formi
Hæfniviðmið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- sýna sjálfstæði í vinnubrögðum og bera ábyrgð á eigin námi
- beita gagnrýninni og skapandi hugsun, sýna áræðni og frumkvæði við lausn verkefna
- tjá skoðanir sínar og skýra verklag á ábyrgan, sjálfstæðan og skýran hátt
- geta tengt þekkingu sína og leikni við starfsumhverfi og daglegt líf