MYNL1GT03 - Teikning, form- og litafræði
Þessi áfangi er grunnáfangi í myndlist þar sem kennd verða grunnatriði teikningar, form- og litafræði. Lögð er áhersla á að þjálfa formskilning nemenda með því að teikna einföld form svo sem kúlu, kassa, keilu og sívalning. Nemendur kynnast og læra að beita lögmálum myndbyggingar, hvernig ólík form, punktar, línur og áferð hafa áhrif á jafnvægi myndflatarins og merkingu. Í litafræðinni kynnast nemendur grundvallaratriðum í meðferð lita, þar sem þeir kanna samspil lita, virkni þeirra og áhrif.
Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- grunnþáttum í myndlist
- notkun teikniáhalda og virkni þeirra
- litasvið blýantsins og aðferðum til skygginga
- að framkalla þrívídd með skyggingu
- grunnþáttum formfræði og teikningar
- blöndun grunnlita í litatóna og hugtök þar að lútandi
- myndbyggingu
- eins og tveggja punkta fjarvídd
- formum og uppbyggingu þeirra
Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- gera skissur og teikningar
- framkalla þrívídd með skyggingu
- blanda liti í mismunandi tónum
- vinna að uppbyggingu myndflatar og nýta sér markvisst hugtök á borð við: - jafnvægi, spennu, þunga, hrynjandi, samhverfu, mynstur og andstæður
- vinna myndverk í þrívídd og fjarvídd
Hæfniviðmið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- nýta reglur og form í eigin listsköpun
- vinna á persónulegan hátt með eigin hugmyndir og útfært í myndverk með tilliti til lita-, formfræði og myndbyggingar.
- byggja upp myndverk