MAME2FM03 - Framandi matarhefðir
Í áfanganum kynnast nemendur matargerð frá ólíkum löndum með áherslu á götueldhús og skyndibita. Í hverri viku verður nýr áfangastaður valin af hópnum í sameiningu. Nemendur vinna menningartengd verkefni um landið sem heimsótt er og mæta einu sinni í viku í verklegan tíma þar sem eldaður verður götumatur frá viðkomandi svæði. Nemendur safna að sér gögnum yfir önnina og skila inn ferilmöppu í lokin. Verkefni í ferilmöppu þurfa að vera samþykkt af kennurum til þess að vera gild til lokamats.
Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- ólíkum hefðum landa í götueldun/skyndibita
- landafræði og mannlífi þeirra landa sem skoðuð eru
- tónlist, kvikmyndamenningu og íþróttalífi þeirra landa sem heimsótt eru
- meðhöndlun matvæla, nýtni og hvernig mismunandi hráefnanotkun endurspegli þau svæði þaðan sem réttirnir koma
Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- lesa texta sem tengist matargerð og menningu
- greina sérkenni í matarmenningu ýmissa þjóða
- matreiða rétti frá ýmsum menningarsvæðum
- safna saman upplýsingum til að vekja athygli á ólíkum löndum
Hæfniviðmið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- afla sér upplýsinga um matargerð og menningu, greina helstu atriði þeirra og hagnýta sér í náminu
- nálgast matarmenningu annarra svæða með opnum huga
- útvíkka matarsmekk sinn til aukinnar lífsfyllingar