LISK1SH04 - Listir og handverk

Listgreinar veita nemendum innsýn í verklegt nám á sviði listsköpunar og handverks og með ólíkri tækni, efnum og vinnuaðferðum, efla þeir hugsun sína og skynjun á jákvæðan hátt. Verkefnin eru mjög fjölbreytt og nokkuð frjáls undir leiðsögn kennara en ætlast er til að nemendur æfi sig í að vera virkir þátttakendur í eigin námi og öðlist þannig aukið sjálfstæði. Nemendur fá að vinna með fjölbreyttan efnivið eins og pappír, pappa, textíl, leir, tré, náttúruefni, vír, plast og eins endurnýtanleg efni sem færu annars í ruslið. Þeir fá að skapa fallega hluti sem hægt er að nýta í daglegu lífi eða bara til að horfa á og njóta. Hverskonar sköpun ýtir undir virkni skynfæra einstaklinga og gerir þá næmari fyrir umhverfi sínu og þeirri fegurð sem býr í því.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal öðlast þekkingu og skilning á:

  • formi, línum og hreyfingu innan listsköpunar
  • gildi lita og notkun þeirra í umhverfi okkar
  • ferli frá hugmynd að fullunnu verki
  • mismunandi vinnuaðferðum í listsköpun og handverki
  • endurvinnslu og endurnýtanlegum efnum
  • sjálfbærni og umhverfisvernd
  • sameiginlegum þráðum i mismunandi listgreinum og handverki
  • mikilvægi þess að nota öguð og vönduð vinnubrögð

 

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • sýna sjálfstæð og vönduð vinnubrögð
  • vinna með endurnýtanleg efni í listsköpun og handverki
  • skipuleggja eigið vinnuferli og setja fram hugmyndir að verkefni
  • ræða um eigin verk og annarra
  • kynna niðurstöður sínar á skilvirkan hátt
  • meðhöndla áhöld og efni í listsköpun og handverki

 

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • nota fjölbreyttar aðferðir í listræna vinnu og sköpun
  • sýna frumkvæði að verkefnum og fylgja þeim eftir
  • beita gagnrýnni og skapandi hugsun í verkefnavinnu sinni
  • vinna á persónulegan hátt með hugmyndir sínar í listsköpun og handverki
  • vera vakandi fyrir efnum og hlutum í hversdagslegu umhverfi sínu og nýta þá í listsköpun og handverki
  • vera virkur í umræðum um umhverfi og endurnýtingu