ÍSLE3NJ05 - Frá Njálu til nýrómantíkur

Áfanginn miðar að því að nemendur öðlist hæfni í að nýta fyrri reynslu, þekkingu og skilning við úrvinnslu nýrra viðfangsefna auk þess að meta eigið vinnuframlag. Jafnframt er markmið áfangans að efla ábyrgðartilfinningu nemenda gagnvart sjálfum sér, námi sínu og umhverfi. Áhersla er lögð á fjölbreyttar nálganir. Í áfanganum þjálfast nemendur í sjálfstæðum vinnubrögðum ásamt því að fá tækifæri til að vinna með öðrum. Lesin er ein Íslendingasaga. Þá kynnast nemendur bókmenntum og bókmenntasögu tímabilsins frá 1550-1920; þ.e. frá lærdómsöld til nýrómantíkur. Íslendingasögur: Nemendur lesa eina þekkta Íslendingasögu og kynnast þeim hugmyndaheimi sem sögurnar grundvallast á; þ.e. hvaða gildi eru þar við lýði og hvaða orsakir eru að baki hinum frásagnarverðu atburðum sem segir frá í sögunni. Bókmenntasaga: Lesin eru ljóð og brot úr bókmenntaverkum frá tímabilinu 1550 til 1920. Nemendur kynnast bókmenntum tímabilsins og helstu höfundum þess. Einnig kynnast nemendur því hvaða hugmyndaheimur er að baki hverju tímabili fyrir sig; þ.e. hvaða kenningar/hugmyndafræði er að baki þeim bókmenntum sem til urðu á þessu tímabili (lærdómsöld, upplýsing, rómantík, raunsæi og nýrómantík). Ritun: Lögð er áhersla á fjölbreytta verkefnavinnu þar sem nemendur vinna jafnt hefðbundin ritunarverkefni sem og skapandi verkefni. Einnig efla nemendur hæfni sína við að byggja upp heimildaritgerð á sjálfstæðan og faglegan hátt.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • ritgerðarsmíð og heimildarvinnu
  • helstu einkennum íslensks máls sem nýtast í ræðu og riti 
  • orðaforða sem nægir til að lesa helstu verk íslenskrar bókmenntasögu
  • mismunandi tegundum bókmennta og nytjatexta, stefnum í íslenskum bókmenntum að fornu og nýju og öllum helstu bókmenntahugtökum.

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • vinna heimildaritgerðir þar sem nemandi beitir gagnrýninni hugsun við úrvinnslu og kemur efninu á framfæri á skýran og greinagóðan hátt á blæbrigðaríku máli
  • vinna að frágangi heimildaritgerða og hvers kyns texta og að nýta sér uppbyggilega gagnrýni annarra til betrumbóta
  • skilja og nota viðeigandi stílbrögð, orðatiltæki og menningarlegar vísanir í tal- og ritmáli
  • draga saman og nýta á viðurkenndan og gagnrýninn hátt upplýsingar úr hvers kyns heimildum, hvort sem er í ræðu eða riti, og meta áreiðanleika þeirra
  • flytja af öryggi og sannfæringarkrafti vel upp byggða ræðu eða ítarlega kynningu á flóknu efni
  • lesa allar gerðir ritaðs máls að fornu og nýju sér til gagns og gamans, skilja lykilhugtök og greina mismunandi sjónarmið

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • skrifa skýran, vel uppbyggðan og grípandi texta og geta valið ritstíl eftir aðstæðum og viðtakendum
  • leggja mat á og efla eigin málfærni og annarra, til dæmis með því að nýta málfræðiupplýsingar og þekkingu sína á íslenska málkerfinu
  • beita málinu á viðeigandi og árangursríkan hátt við mismunandi aðstæður í ræðu og riti
  • tjá rökstudda afstöðu við ýmsar kringumstæður, útskýra sjónarmið og taka virkan þátt í málefnalegum umræðum til að komast að vel ígrundaðri niðurstöðu
  • draga saman aðalatriði, beita gagnrýninni hugsun við lestur, túlkun og úrvinnslu krefjandi texta, átta sig á samfélagslegum skírskotunum og ná duldum boðskap og hugmyndum
  • sýna þroskaða siðferðisvitund, víðsýni, sköpunarhæfni og samlíðan í málflutningi sínum, umfjöllun og verkum