ÍSLE3NB05 - Nútímabókmenntir
Verkefnavinna áfangans gengur út á að efla hæfni nemenda í að vinna með sjálfstæðum hætti að verkefnum sínum sem og að taka þátt í umræðum í tímum um þau viðfangsefni sem eru til umfjöllunar hverju sinni. Jafnframt er markmiðið að efla ábyrgðartilfinningu nemenda gagnvart sjálfum sér, námi sínu og umhverfi. Í þessum áfanga halda nemendur áfram þar sem frá var horfið í áfanganum á undan, unnið er með ljóð og textabrot frá um 1980 og fram undir aldamót. Unnið er með styttri og lengri texta frá módernisma til samtímans sem og ýmist efni, bæði fræðilegt og úr fjölmiðlum, sem sett er í samhengi við þau skáldverk sem liggja til grundvallar hverju sinni. Nemendur kynna sér ólík form bókmennta - lesnar eru smásögur, ljóð- og dægurlagatextar og ein skáldsaga. Einnig er rýnt í myndefni, einkenni barna- og unglingasagna og norrænu glæpasögurnar og sjónum nemenda beint að hvernig tíðarandi og samfélagið speglast í listsköpun hverju sinni. Þau verkefni sem nemendur vinna að miða að því að efla læsi þeirra á þá fjölbreyttu texta sem þau lesa í áfanganum. Lögð er áhersla á fjölbreytt verkefni, bæði munnleg og skrifleg sem og heimildavinnu. Samhliða því vinna nemendur með fræðitexta frá sama tímabili og setja hann í samhengi við þau skáldverk sem unnið er með í áfanganum. Í áfanganum er unnið með eftirfarandi grunnþætti: læsi, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, sköpun og heilbrigði. Sjónum nemenda er beint að hvernig þessir grunnþættir birtist þeim í hinum margvíslegu textum sem lesnir eru.
Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- ritgerðarsmíð og heimildarvinnu
- helstu einkennum íslensks máls sem nýtast í ræðu og riti, sem og til náms í erlendum tungum
- orðaforða sem nægir til að lesa helstu verk íslenskrar bókmenntasögu
- mismunandi tegundum bókmennta og nytjatexta, stefnum í íslenskum bókmenntum að fornu og nýju og öllum helstu bókmenntahugtökum.
Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- ritun heimildaritgerða þar sem hann beitir gagnrýninni hugsun við úrvinnslu og kemur efninu á framfæri á skýran og greinargóðan hátt á blæbrigðaríku máli
- frágangi heimildaritgerða og hvers kyns texta og að nýta sér uppbyggilega gagnrýni annarra til betrumbóta
- að flytja af öryggi og sannfæringarkrafti vel upp byggða ræðu eða ítarlega kynningu á flóknu efni
- að lesa allar gerðir ritaðs máls að fornu og nýju sér til gagns og gamans, skilja lykilhugtök og greina mismunandi sjónarmið.
Hæfniviðmið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- skrifa skýran, vel uppbyggðan og grípandi texta og geta valið ritstíl eftir aðstæðum og viðtakendum
- beita málinu á viðeigandi og árangursríkan hátt við mismunandi aðstæður í ræðu og riti
- tjá rökstudda afstöðu við ýmsar kringumstæður, útskýra sjónarmið og taka virkan þátt í málefnalegum umræðum til að komast að vel ígrundaðri niðurstöðu
- draga saman aðalatriði, beita gagnrýninni hugsun við lestur, túlkun og úrvinnslu krefjandi texta, átta sig á samfélagslegum skírskotunum og ná duldum boðskap og hugmyndum
- sýna þroskaða siðferðisvitundi, víðsýni, sköpunarhæfni og samlíðan í málflutningi sínum, umfjöllun og verkun.