ÍSLE2MR05 - Bókmenntir, málnotkun og ritun

Í þessum grunnáfanga vinna nemendur með undirstöðuatriði málnotkunar, ritunar og bókmennta. Jafnframt er markmiðið að efla ábyrgðartilfinningu nemenda gagnvart sjálfum sér, námi sínu og umhverfi. Áhersla er lögð á fjölbreytta nálgun, þjálfun í sjálfstæðum vinnubrögðum en einnig í hópavinnu. Nemendur kynna sér meginatriði málsögu og þjálfa málfræði og málnotkun í gegnum ritun.  Nemendur þjálfa sig í að skrifa margvíslega texta; allt frá skapandi skrifum til faglegrar ritgerðar. Lesnar eru smásögur og fleiri stuttir textar, ein nýleg skáldsaga en einnig fá nemendur kynningu á fornaldarsögum Norðurlanda. Nemendur tileinka sér helstu hugtök bókmenntafræði og æfa sig í að beita þeim. Læsi er sá grunnþáttur sem mest reynir á í vinnu með bókmenntir almennt og er grundvöllur fyrir því að ná árangri í áfanganum.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • mismunandi tegundum bókmennta og grunnhugtökum í bókmenntafræði
  • helstu hugtökum í ritgerðasmíð
  • grundvallarvinnubrögðum við skrif heimildaritgerða

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • skrifa ritgerðir þar sem beita þarf gagnrýninni hugsun og koma skoðunum sínum á framfæri á skýran og greinargóðan hátt
  • draga saman og nýta upplýsingar úr ýmiss konar heimildum og flétta saman við eigin viðhorf og ályktanir á faglegan og heiðarlegan hátt
  • nýta málfræðihugtök og málfræðilegar upplýsingar til þess að efla eigin málfærni
  • lesa sér til gagns og gamans nytjatexta og bókmenntaverk frá ýmsum tímum og fjalla um inntak þeirra
  • flytja af nokkru öryggi kynningar á tilteknum málefnum

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • vinna að skapandi verkefnum í tengslum við námsefnið og sýna töluverð tilbrigði í málnotkun
  • styrkja eigin málfærni og nám í erlendum tungumálum, til dæmis með því að nýta málfræðiupplýsingar í handbókum og á vefsíðu Árnastofnunar
  • beita skýru og blæbrigðaríku máli í ræðu og riti
  • taka þátt í málefnalegum umræðum, byggja upp skýra röksemdafærslu, tjá afstöðu og efasemdir um efnið og komast að niðurstöðu
  • túlka texta þó merkingin liggi ekki á yfirborðinu.