ÍSLE2ED05 - Eddukvæði og Íslendingasögur

Verkefnavinna áfangans gengur út á að efla hæfni nemenda í að vinna með sjálfstæðum hætti að verkefnum sínum sem og að taka þátt í umræðum í tímum um þau viðfangsefni sem eru til umfjöllunar hverju sinni. Jafnframt er markmiðið að efla ábyrgðartilfinningu nemenda gagnvart sjálfum sér, námi sínu og umhverfi. Í áfanganum vinna nemendur með íslenskar fornbókmenntir, Snorra-Eddu, Eddukvæði og fornaldarsögur en skoða einnig hvernig sagnaarfur Íslendinga endurspeglast í list og menningu í dag. Einnig er lögð áhersla á að nemendur haldi áfram að þjálfa sig í frágangi tilvitnana og heimilda. Nemendur kynna sér þann heim og hugmyndafræði sem finna má í íslenskum og norrænum fornbókmenntum með því að lesa og vinna krefjandi verkefni úr efni áfangans - bæði í hópverkefnum og einstaklingsverkefnum. Nemendur eru þjálfaðir í að vinna úr lesefni áfangans með fjölbreyttum hætti. Í vinnu með efni áfangans er unnið markvisst með eftirfarandi grunnþætti: læsi, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Læsi er sá grunnþáttur sem mest reynir á í vinnu með bókmenntir almennt og er grundvöllur fyrir því að ná árangri í áfanganum. 

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • íslenskum og norrænum fornbókmenntum
  • áhrifum sagnaarfs Íslendinga á íslenska menningu í dag
  • helstu hugtökum í ritgerðasmíð

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • skrifa ritgerð þar sem beitt er gagnrýninni hugsun og skoðunum komið á framfæri á skýran og greinargóðan hátt
  • nota viðeigandi hjálpargögn við frágang ritsmíða
  • draga saman og nýta upplýsingar úr ýmiss konar heimildum og flétta saman við eigin viðhorf og ályktanir á heiðarlegan hátt
  • lesa sér til gagns og gamans nytjatexta og bókmenntaverk frá ýmsum tímum og fjalla um inntak þeirra

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • vinna að skapandi verkefnum í tengslum við námsefnið og sýna töluverð tilbrigði í málnotkun
  • beita skýru, lýtalausu og blæbrigðaríku máli í ræðu og riti
  • taka þátt í málefnalegum umræðum, byggja upp skýra röksemdafærslu, tjá afstöðu og efasemdir um efnið og komast að niðurstöðu
  • túlka texta þó merkingin liggi ekki á yfirborðinu.