ÍSLE1UN03 - Bókmenntir, ritun, stafsetning og málfræði
Í þessum áfanga er lögð áhersla á að undirbúa nemendur undir frekara nám í íslensku á framhaldsskólastigi með því að fara í undirstöðuatriði málfræði, stafsetningar, ritunar og bókmennta. Jafnframt er markmiðið að efla ábyrgðartilfinningu nemenda gagnvart sjálfum sér, námi sínu og umhverfi. Áhersla er lögð á fjölbreyttar nálganir. Í áfanganum þjálfast nemendur í sjálfstæðum vinnubrögðum ásamt því að þeir fá tækifæri til að vinna með öðrum. Lesnir verða margvíslegir textar til að auka orðaforða. Nemendur vinna stafsetningarverkefni og þjálfa sig í því að nýta sér stafsetningarreglur og önnur hjálpargögn til að bæta stafsetningu sína. Nemendur þjálfast einnig í byggingu ritsmíða og röksemdarfærslu ásamt því að nýta sér ýmis konar hjálpargögn, svo sem handbækur, orðabækur og leiðréttingaforrit. Bókmenntatextar eru valdir með það að markmiði að efla skilning og orðaforða. Læsi er sá grunnþáttur sem mest reynir á í vinnu með bókmenntir almennt og er grundvöllur fyrir því að ná árangri í áfanganum. Nemendum eru kynnt grunnhugtök bókmennta, þeir taka þátt í umræðum og þjálfast í upplestri og framsögn.
Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- grunnhugtökum í ritgerðarsmíð
- orðaforða umfram það sem gerist í talmáli
- nokkrum tegundum bókmennta og nytjatexta og helstu hugtökum sem nýtast við umfjöllun um bókmenntir
Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- skrifa ýmsar tegundir texta í samfelldu máli þar sem framsetningin er skýr og skipulögð
- notkun leiðréttingaforrita og annarra hjálpargagna til að lagfæra eigin texta
- nota mismunandi blæbrigði og málsniði í tal- og ritmáli
- draga saman aðalatriði í fyrirlestrum og ritmáli, leita upplýsinga úr heimildum og nýta þær á viðurkenndan hátt sér til gagns
- þekkja algengt líkingamál og orðatiltæki
- lesa sér til gagns og gamans texta sem gera nokkrar kröfur til lesenda
Hæfniviðmið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- semja stutta texta af ýmsu tagi með mismunandi málsniði
- leggja stund á tungumálanám, til dæmis með því að nýta sér orðasöfn og algengustu málfræðihugtök
- beita einföldum blæbrigðum í málnotkun til að forðast einhæfni og endurtekningar
- halda uppi samræðum og rökstyðja eigin fullyrðingar, ákvarðanir eða skoðanir á málefnalegan hátt
- túlka og meta atburðarrás og persónur í bókmenntum eða annars konar frásögnum