HEIM3ÖF05 - Öfuguggar og heimsendar
Er til frjáls vilji? Er lýðræði besta stjórnarskipulagið? Hafa ríkir og fátækir sömu mannréttindi? Hvað er frelsi? Megum við hugsa hvað sem er? Er réttlætanlegt að njósna um milljónir einstaklinga í nafni öryggis? Í áfanganum verður lesin bókin 1984 eftir George Orwell og hún notuð sem leiðarvísir að samfélagi okkar í dag. Fjallað verður um samtímaviðburði eins og njósnir á veraldarvefnum, mannréttindi, málfrelsi og hugsunarfrelsi, frelsishugtakið og hvernig mannkynið hefur brugðist við hnattvæðingu síðustu áratuga. Lögð er áhersla á að nemendur öðlist undirstöðuþekkingu á notkun heimspeki í samtímanum ásamt grundvallarskilningi á helstu heimspekikenningum sem hafa mótað viðhorf mannsins til siðferðis, frelsis, guðs og eðli heimsins. Áhersla er lögð á sjálfstæða hugsun og sjálfstæð vinnubrögð, nemendur eru hvattir til að horfa með gagnrýnum augum á námsefnið jafnt sem eigin skoðanir og viðhorf. Samræður eru stór hluti áfangans og er góð mæting því mikilvæg til þess að öðlast skilning á efni áfangans. Verkefnavinna miðar að því að nemendur öðlist hæfni til að nýta eigin þekkingu og reynslu við úrlausn nýrra viðfangsefna.
Þekkingarviðmið
- hugtökum eins og frelsi, lýðræði, fasismi, kommúnismi, málfrelsi, hugsunarfrelsi, mannréttindi og alþjóðavæðing
- mikilvægi gagnrýninnar hugsunar í daglegu lífi
- lestri heimspekitexta
- heimspekilegum samræðum
Leikniviðmið
- lesa heimspekitexta
- endursegja og skýra heimspekilega texta
- beita gagnrýnni hugsun
- meta eigin rök og annarra
- tjá sig heimspekilega og hlusta á aðra
- tengja heimspeki við eigin reynslu og veruleika
- taka þátt í heimspekilegum samræðum
Hæfnisviðmið
- geta miðlað torskildum fróðleik á skýran hátt
- geta beitt gagnrýnni hugsun á markvissan hátt á öllum sviðum lífsins
- geta borið saman ólíkar skoðanir og rök til að komast að sameiginlegri niðurstöðu
- geta tileinkað sér nýja þekkingu á markvissari hátt
- taka þátt í samtímaumfjöllun um mál sem varða mannréttindi og frelsi
- skilja betur heiminn og samfélagið sem hann býr í
- beita heimspekilegum aðferðum til þess að leysa úr siðferðislegum og hversdagslegum vandamálum